„Við gætum öll tekið krossapróf úr ævisögu Bubba“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við gætum öll tekið krossapróf úr ævisögu Bubba“

05.12.2021 - 13:03

Höfundar

„Við þurfum ekkert að fara yfir það en „celeb“ VIP-hópurinn á Íslandi er svona fjörutíu manns. Svo mér finnst mest skemmtilegt að hitta fólk sem hefur sögu að segja sem ég hef ekki heyrt,“ segir Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlamaður sem ræðir við ólíka einstaklinga í nýjum sjónvarpsþáttum.

Þorsteinn J. Vilhjálmsson rithöfundur og sjónvarpsmaður hefur sannarlega marga fjöruna sopið og farið sínar eigin leiðir á fjölmiðlaferlinum. Mörgum er það til dæmis minnisstætt þegar hann stökk úr flugvél í tólf þúsund feta hæð í beinni útsendingu árið 1987 og öskraði samfleytt í þrjátíu sekúndur. Á laugardögum stýrði hann lengi útvarpsþáttunum Þetta líf. Þetta líf, þar sem hann tók til dæmis viðtöl við plöntur og styttur. „Þetta var rosalega skemmtilegur tími fyrir mig,“ segir hann sem í dag rekur samnefnt fyrirtæki, Þetta líf. Þetta líf ehf. Síðustu mánuði hefur hann tekið upp viðtalsþætti sem eiga að vera eins konar portrett af áhugaverði fólki. Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans. „Hugmyndin er gamla portrettljósmyndunin, þegar fólk mætti á ljósmyndastofu í sínu fínasta og sat fyrir hjá ljósmyndaranum,“ segir hann um þættina. „Þarna bæti ég við viðtali á meðan ég er að taka ljósmyndirnar. Ofan á þetta koma senur úr lífi fólks, stutt, mjög knappt form.“

Hann segir að vegna smæðar landsins sé hópur fræga fólksins afar smár. „Við þurfum ekkert að fara yfir það en celeb VIP-hópurinn á Íslandi er svona fjörutíu manns svo mér finnst mest skemmtilegt að hitta fólk sem hefur sögu að segja sem ég hef ekki heyrt,“ segir Þorsteinn um þættina sína Sögur sem breyta heiminum þar sem hann ræðir við alls konar fólk úr ólíkum áttum. „En með fræga fólkið samt, með fullri virðingu, en við gætum öll farið í krossapróf núna bara í ævisögu Bubba Morthens og fengið hærra í prófinu en hann. Við erum svo vel að okkur í þessum fáu sem eru.“

Lykillinn að því að finna sögurnar sem eru alltumlykjandi segir Þorsteinn að sé sá að einfaldlega hlusta og horfa í kringum sig. „Þá allt í einu detturðu inn í eitthvað samtal eða heyrir af einhverjum og dettur inn í spjall. Það er það sem er svo fallegt við fjölmiðla; Þú tekur upp símann, hringir og segir: Mig langar að hitta þig. Svo er maður kominn inn í aðstæður, inn á heimili fólks eða inn í vinnu þess og alls konar. Þetta er það sem gerir þetta starf svo dásamlegt.“

Á síðasta ári sendi Þorsteinn frá sér bókina Ég skal vera ljósið en það var verkefni sem hann hafði unnið að í fimmtán ár. Hann er með ýmis þannig verkefni í gangi, meðal annars í tengslum við fluguveiði sem hann hefur mikinn áhuga á. „Maður lendir í fermingarveislum og fólk er að tala um covid eða stjórnmálin og spyrja: Hvað finnst þér um nýju ríkisstjórnina? Maður er alveg bara: Ah, var búið að skipta?“ En ef talið berst að fluguveiðum sperrir Þorsteinn eyrun. „Svo segir einhver: Ég fór í Hlíðarvatn í gær og maður bara: Ha, í alvöru? Mér finnst það alveg stórkostlega skemmtilegt og nördalegt.“

Hann gerði sjálfur heimildarmynd um Vatnsdalsá sem hann vann að í tæpan áratug. „Það hafa verið skrifaðar frábærar bækur um veiði, frábær literatúr og þetta er eitthvað sem er líka gaman að gera. Og þróa fleiri hugmyndir að sjónvarpsþáttum og bókum,“ segir hann.

Þorsteinn hefur ekki verið fastráðinn síðan hann starfaði á fréttastofu Stöðvar tvö og stýrði þættinum Viltu vinna milljón? upp úr aldamótum. „Það fer mér ekki vel að vera fastráðinn. Ég prófaði einu sinni að vinna við skrifborð og það var hræðilegt,“ segir hann. En í hlutafélagi hans Þetta líf. Þetta líf ehf. hefur hann frelsi sem hentar honum. „Stundum vinn ég einn og stundum kemur til mín fólk og við erum að gera verkefni saman,“ segir hann. „Og það eru forréttindi í þessu starfi að vinna með fólki sem stækkar hugmyndina þína.“

Rætt var við Þorstein J. Vilhjálmsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.