Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vetrarfærð og gular stormviðvaranir

05.12.2021 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Vetrarfærð er í öllum landshlutum að morgni, samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar, og Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir á Miðhálendinu og öllu vestanverðu landinu vegna storms sem gengur yfir stóran hluta landsins.

Gular viðvaranir á vestanverðu landinu

Veðrið gengur fyrst inn á Miðhálendið, Breiðafjörð, Faxaflóa, höfuðborgarsvæðið og Suðurland með morgninum en síðdegis tekur veðrið sig upp á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Á öllum þessum svæðum slær í storm sem getur víða reynst farartækjum hættulegur, sérstaklega í hviðum við fjöll og á fjallvegum er viðbúið að snjói og þá gæti færð spillist. Ekkert ferðaveður er á Miðhálendinu.

Veðurstofan spáir vaxandi suðaustanátt, fimmtán til 25 metrar á sekúndu, í dag, hvassast verður í vindstrengjum við fjöll þar sem hviður geta náð allt að 45 metrum á sekúndu. Þykknar upp og hlýnar með slyddu eða rigningu á láglendi eftir hádegi. Hægari vindur austantil á landinu framan af degi, en sunnan tíu til átján þar síðdegis og dálítil snjókoma eða slydda á köflum. Hiti frá frostmarki að fimm stigum seint í dag.

Dregur úr vindi í kvöld og nótt. Breytileg átt á morgun, yfirleitt á bilinu fimm til þrettán metrar á sekúndu. Rigning eða snjókoma með köflum í flestum landshlutum. Hiti víða að þremur stigum.

Vetrarfærð um allt land

Á áttunda tímanum var snjóþekja og skafrenningur á Hellisheiði, hálka og skafrenningur í þrengslum og hálka, hálkublettir eða krapi á öðrum leiðum á Suðvesturlandi. Flughált á Nesvegi. Þæfingsfærð og skafrenningur var á Fróðárheiði en annars hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum. Svipaða sögu var að segja af Vestfjörðum, hálka á flestum leiðum og eitthvað um snjóþekju og flughált frá Djúpavík að Gjögri en þæfingsfærð í Árneshreppi.

Flughált er á Vatnsdalsvegi en annars hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Norðurlandi og hálka eða hálkublettir á öllum leiðum á Norðausturlandi. Hálka eða hálkublettir voru á flestum leiðum á Austurlandi og mjög hálir vegkaflar milli Eiða og Borgarfjarðar eystri þar sem full ástæða er til að aka sérstaklega. Ófært er á Öxi og þungfært á Breiðdalsheiði. Hálka eða hálkublettir voru á flestum leiðum á Suðausturlandi og Suðurlandi og flughált á Þjórsárdalsvegi og Landeyjahafnarvegi.

Veðrið hefur mikil áhrif á ferðir Strætós milli sveitarfélaga og falla margar ferðir niður í dag. 

Á Reykjanesbraut verður sérlega hvasst þvert á veg með miklu vatnsveðri, verst á milli tólf og fjögur, að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar. Skafrenningur á Hellisheiði og blind hríð um tíma um miðjan daginn. Á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli eru ekki horfur á að lægi að gagni fyrr en eftir sex í kvöld.

Nýjustu upplýsingar um færð er að finna á vef Vegagerðarinnar og nýjustu upplýsingar um viðvaranir vegna veðurs á vef Veðurstofunnar.

Nú hvessir

Pistill veðurfræðings á vakt á Veðurstofunni er svohljóðandi: „Nú er að hvessa hjá okkur og í dag er spáð suðaustan stormi á vesturhelmingi landsins. Af því tilefni voru gefnar út gular viðvaranir í gær. Það hefur verið kalt undanfarið, en vindurinn blæs kalda loftinu burt. Það er útlit fyrir enga eða litla úrkomu fyrir hádegi, en síðdegis má búast við slyddu eða rigningu á láglendi með hita 1 til 5 stig. Mögulega getur gert hríð á fjallvegum. Hægari vindur austantil á landinu framan af degi, en síðdegis gengur í strekkings eða allhvassa sunnanátt þar og dálítil snjókoma eða slydda á köflum. Það lægir síðan í kvöld og nótt, fyrst suðvestantil á landinu. Á morgun er síðan útlit fyrir
breytilega átt, yfirleitt á bilinu 5-13 m/s. Væntanlega fá flestir landshlutar skammt af úrkomu áður en morgundagurinn er liðinn. Hitinn mjakast niðurávið aftur og því verður úrkoman ýmist rigning eða snjókoma.“