Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rennslið 28-falt í Gígjukvísl miðað við venjulega

05.12.2021 - 19:49
Hlaupið úr Grímsvötnum náði sennilega hámarki sínu í dag. Rennsli í Gígjukvísl mældist um 2.800 rúmmetrar á sekúndu í mælingu sem var gerð í morgun, sem er um tuttugu-og-áttfalt rennsli miðað við venjulegt árferði. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er farið að hægja á sigi íshellunnar í Grímsvötnum en hún hefur sigið um tæpa 74 metra síðan hlaupið hófst.

Gígjukvísl var ófrýnileg, jökulgrá og straumþung í dag. Krafturinn í jökulhlaupinu hefur sett mark sitt á landslagið. Stóreflisgrjóti var komið fyrir við sökkla brúarinnar en krafturinn í hlaupinu er slíkur að það hefur hrifsað þó nokkuð af grjótinu með sér. 

Þrátt fyrir suðaustan hvass viðri létu vatnamælingamenn Veðurstofunnar það ekki aftra sér við mælingarnar í dag. Lárus Helgason hefur búið alla ævi á Kálfafelli sem er sá bær sem er næst Gígjukvísl. Hann hefur fylgst vel með hlaupinu.

„Í gær var þetta nú orðinn ansi mikill flaumur þarna landa á milli. Svo brýtur hún aðeins úr bökkunum sitt hvoru megin, bæði fyrir ofan brú og neðan. Þetta er svoddan ægissandur þarna alls staðar. Og aðeins farin að hrynja úr jökulöldundum þarna upp frá, þessu hliði þar sem hún kemur, þar sem hlaupið kemur fram úr. Svartir bakkar þar sitt hvoru megin“ segir Lárus.

Hann vonar að ekki komi til goss og öskufalls líkt og 2011.

„Það er svona þriggja og hálfs sentimetra lag hérna í sverðinum, undir grassverðinum, þar sem þetta hefur fallið jafnt. Það var kolamyrkur fjóra klukkutíma annan daginn og sex klukkutíma hinn daginn.“ segir Lárus.