Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Örríkið sem ögrar Bretlandi og Kórónuveirunni

05.12.2021 - 21:40
Mynd með færslu
 Mynd: Richard Lazenby
Pallur gerður úr málmi og steinsteypu stendur í Norðursjó rúma tíu kílómetra undan suðausturströnd Englands. Þar búa örfáir í sjálfútnefndu örríki, furstadæminu Sjálandi. Um ríflega hálfrar aldar skeið hafa íbúar þess ögrað valdi Bretlands.

Allir þeir sem hyggjast heimsækja furstadæmið þurfa að sýna neikvætt kórónuveirupróf áður en þeir eru hífðir upp á pallinn.

Liam Bates, barnabarn Roy Bates sem stofnaði ríkið árið 1967, segir með stolti að Sjáland sé eitt af fáum ríkjum heims sem geti stært sig af að vera kórónuveirufrítt. Liam og bróðir hans James titla sig prinsa.

Sjáland er í raun svokallað Maunsell-virki sem breski herinn reisti til varna við strendur Englands á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Virkin voru allmörg en voru flest rifin eftir stríð en Roughs Tower sem nú heitir Sjáland stendur enn.

Maunsell-virki eru kennd við breska borgarverkfræðinginn Guy Anson Maunsell sem fékk það hlutverk að hanna þau fyrir bresku flotastjórnina. Sjáland taldist um áratugaskeið vera utan breskrar lögsögu en var innlimað árið 1987. Bretar hafa þó ekki reynt að ná Sjálandi á sitt vald.

Roy Bates kom sér þar fyrir og setti upp sjóræningjaútvarpsstöð og lýsti yfir sjálfstæði, setti sér stjórnarskrá, tók upp þjóðfána og -söng, jafnvel latneskt kjörorð „E Mare Libertas“.

Liam gantast með að hann sé Harry prins Sjálands þar sem unnusta hans er bandarísk og hann á eldri bróður sem stjórnar skelfiskveiðum furstadæmisins og framleiðslu á dósamat.

Sjáland hefur þó tekjur sínar helst af því að selja nafnbætur á borð við hertogatign og lávarðstitil. Sjálendingar borga ekki skatta á Bretlandi en tveir menn búa þar að jafnaði.

Bræðurnir koma reglulega í heimsókn í furstadæmið sem hefur lifað af eldsvoða og valdaránstilraun árið 1978. Þýskur kaupsýslumaður sendi málaliða til að hertaka ríkið meðan Roy var fjarstaddur.

Hann náði ríkinu aftur á sitt vald með fulltingi Michaels sonar síns föður þeirra James og Liams. Hann sleppti málaliðunum en hélt lögmanni kaupsýslumannsins föngnum í klefa sem enn er að finna í furstadæminu. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV