Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mótmæla fyrirhugaðri liþín-námuvinnslu í Serbíu

05.12.2021 - 01:19
epa09621366 Protesters stop vehicles at the E-75 highway in Belgrade, Serbia, 04 December 2021. Anti-government protestors blocked roads and bridges in Serbia against the new amendments to the Law on Referendum and Expropriation.  EPA-EFE/ANDREJ CUKIC
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir lokuðu vegum víða um Serbíu til að mótmæla áformum stjórnvalda um að veita Rio Tinto leyfi til að vinna liþín úr jörð. Efnið er meðal annars notað í rafhlöður rafknúinna ökutækja.

Í höfuðborginni Belgrad þyrptust mótmælendur út á hraðbraut og brú sem tengir borgina við nærliggjandi úthverfi. Fólkið bar mótmælaspjöld og hrópaði slagorð gegn ríkisstjórninni og fyrirætlunum hennar.

Til ryskinga kom milli andstæðra fylkinga og eins í borginni Novi Sad í norðanverðu landinu. Fámennari mótmæli voru í öðrum borgum Serbíu.

Liþín er að finna í talsverðu magni umhverfis borgina Loznica í vestanverðri Serbíu. Rio Tinto hefur keypt mikið land þar um slóðir og bíður nú leyfis stjórnvalda til að hefja námuvinnslu.

Ríkisstjórn Aleksanders Vucic liggur undir þungu ámæli fyrir að greiða leiðina fyrir ólögleg landakaup og að hún láti umhverfissjónarmið lönd og leið.

Tennisstjarnan Novak Djokovic deildi myndum af mótmælunum á Instagram með þeim orðum að hreint loft, vatn og fæða væru lykillinn að heilsusamlegu lífi.

Í síðustu viku kom til svipaðra aðgerða en þá réðust grímuklæddir menn að mótmælendum í borginni Sabac í vesturhluta landsins. Það olli hörðum viðbrögðum á samfélagsmiðlum þar sem ríkisstjórnin var sökuð um að beita óeirðaseggjum til að kveða niður mótmæli. 

Skipuleggjendur mótmælanna eru ásakaðir um að ætla sér að grafa undan trausti á ríkisstjórn Vucics með því valda ágreiningi í aðdraganda fyrirhugaðra kosninga í landinu á næsta ári.