Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Krefjast rannsóknar á aftökum öryggissveitamanna

epa09620710 Taliban members inspect the scene of a bomb blast in Kabul, Afghanistan, 04 December 2021. According to reports, a magnetic improvised explosive device (IED), targeting a governor of Panjshir Qudratullah crossed the border in the taimani area of ​​Kabul, the Taliban said no one was injured in the incident.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mörg vestræn ríki með Bandaríkin og Evrópusambandið í broddi fylkingar krefjast þess að rannsókn verði umsvifalaust hafin á skyndiaftökum Talibana á fyrrverandi liðsmönnum öryggissveita í Afganistan. Margir þeirra eru gersamlega horfnir.

Alls koma 20 ríki að yfirlýsingunni, þeirra á meðal Ástralía, Bretland, Kanada, Úkraína og Japan. Þar er þetta athæfi Talibana, sem mannréttindasamtök greindu frá, harðlega fordæmt. 

Fyrr í vikunni birtu samtökin Human Rights Watch skýrslu þar sem greint er frá hvarfi eða aftökum 47 fyrrverandi öryggissveitamanna, hermanna, lögreglumanna og leyniþjónustunni.

Allt sé hafi þetta fólk ýmist gefist upp sjálfviljugt eða Talibanar náð því á sitt vald frá því ágúst og fram í október. Þeir hafi skráð upplýsingar um fólkið og afhent því skjöl sem tryggja áttu öryggi þess.

Örfáum dögum síðar hafi Talibanar handtekið fólkið aftur og tekið það af lífi. Lík þeirra hafi svo verið skilin eftir á víðavangi. Ríkin krefjast þess að málið verði rannsakað í hörgul og þeim sem beri ábyrgð gert að standa fyrir máli sínu. 

Ríkin segja að atferlið sé í hrópandi mótsögn við loforð Talibana eftir valdatökuna í ágúst um full grið til handa þeim sem störfuðu fyrir fráfarandi ríkisstjórn eða vestræn ríki. Koma þurfi í veg fyrir frekari mannshvörf og morð í Afganistan. 

Í yfirlýsingu ríkjanna segir að Talibanar fótum troði mannréttindi með þessu og hvetja forvígismenn þeirra til að tryggja að sakaruppgjöfin haldi um allt land og að gjörvallt lið þeirra hlýði því. 

Fulltrúar bandarískra stjórnvalda ræddu við embættismenn Talibana fyrr í vikunni og kröfðust þess að stúlkum og konum verði gert kleift að mennta sig. Sömuleiðis lýstu Bandaríkjamenn almennum áhyggjum vegna ásakana um margvísleg mannréttindabrot Talibanastjórnarinnar. 

Leiðtogar Talibana hafa heitið því að tryggja mannréttindi með það í huga að öðlast alþjóðlega viðurkenningu. Þrátt fyrir þau fyrirheit berast tíðindi af þungum refsingum og annars konar mannréttindabrotum.