Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gjaldkerinn tók skóna úr hillunni og var hetja Fram

Mynd: RÚV / RÚV

Gjaldkerinn tók skóna úr hillunni og var hetja Fram

05.12.2021 - 15:11
Magnús Gunnar Erlendsson, 42 ára gjaldkeri stjórnar handknattleiksdeildar Fram, var í hetjuhlutverki hjá Fram þegar liðið náði jafntefli við Aftureldingu í úrvalsdeild karla í handbolta í gærkvöld.

Afturelding var tveimur mörkum yfir, 27-25 þegar 50 sekúndur voru eftir af leiknum. En Fram minnkaði muninn í eitt mark í næstu sókn. Afturelding gat svo tryggt sér sigurinn í lokasókn sinni, en Magnús varði. Fram skoraði svo á lokasekúndunum og jafntefli varð niðurstaðan, 27-27. 

Aðalmarkmaðurinn meiddur

Magnús Gunnar sem er 42 ára hljóp í skarðið fyrir Lárus Helga Ólafsson sem er meiddur og spilaði síðustu mínútur leiksins í gærkvöld. Magnús varð Íslandsmeistari með Fram 2013, en hafði ekkert spilað handbolta í að verða sex ár fyrir leikinn.

„Einar [þjálfari] hringdi í mig í byrjun vikunnar og spurði mig hvort ég gæti mætt á æfingu og kannski aðeins hjálpað til. Lalli er náttúrulega meiddur og verður frá held ég út desember. Þó þeir séu flottir Arnór og Týri þá hefur eitthvað skort á sjálfstraustið og Einar spurði hvort ég gæti verið með og reynt aðeins að peppa þá. Ég gerði það og gekk ágætlega, alla vega nógu vel til þess að hann vildi hafa mig í hóp og svo bara henti hann mér inn á."

Smá stressaður

Magnús viðurkennir að hafa ekki verið alveg inni í þægindarammanum þegar honum var skipt inn á. „Ég var smá stressaður, ég skal viðurkenna það. Það eru komin mörg ár síðan ég stóð í markinu seinast. Það var alveg fiðringur í maganum en þegar ég kom inn á þá hvarf það og ég datt í þennan klassíska gír."

Er hvernig skyldi gjaldkerastarf stjórnarinnar fara saman við að verja mark meistaraflokks? „Stjórnarmönnum ber svoldið að reyna að hjálpa liðinu að ná árangri."

Spilar áfram

Magnús segist hafa mjög gaman að þessari óvæntu endurkomu og býst við að spila meira á næstunni. Einar Jónsson þjálfari hefur beðið hann um að vera áfram, í það minnsta þangað til Lárus snýr aftur. Næsti leikur Fram verður gegn Haukum á fimmtudaginn.

Viðtalið við Magnús má sjá í heild sinni í spilaranum efst í þessari frétt.