Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gamalt skraut fékk nýtt líf

05.12.2021 - 19:40
Jólasveinar, englar, aðventuljós og annað jólaskraut skipti um eigendur um helgina þegar endurnýja mátti jólaskraut með engum tilkostnaði í Efnismiðlun Góða hirðisins. Rekstrarstjóri segir að þetta sé skemmtileg leið til að grynnka á heimilissorpi.

Þó að jólaskraut sé að öllu jöfnu sett upp einu sinni á ári þá geta sumir orðið þreyttir á að sjá sama skrautið ár eftir ár. Þeir sem eiga við slíkan vanda að stríða gátu farið í Efnismiðlun Góða hirðisins á Sævarhöfða um helgina, komið með gamla skrautið og fengið annað gamalt í staðinn. 

Einn þeirra sem leit við með gamla skrautið sitt og gekk út með annað gamalt skraut var Jón Haraldsson. „Mér datt í hug að það væri svolítið sniðugt að nýta tækifærið - hér er nóg úrval,“ sagði Jón. 

Ertu orðinn þreyttur á gamla skrautinu? „Nei, ég myndi nú ekki segja það. Það er frekar áhugi á að bæta á. Smá,“ sagði Jón hlæjandi.

Guðmundur Tryggvi Ólafsson rekstrarstjóri endurvinnslustöðva Sorpu, sagði að um tilraun væri að ræða. „Við erum í dag að gera tilraun til að taka á móti jólaskrauti, nýju og notuðu og miðla því til þeirra sem vantar tilbreytingu eða vantar jólaskraut alveg.“

Og undirtektirnar voru góðar. Talsvert af fólki kom með skraut og fékk annað í staðinn og það sem gekk af fer í verslanir Góða hirðisins. Markmiðið með verkefninu er að minnka sorp, en til Sorpu berast um 600 tonn af sorpi daglega.

„Það eru jól einu sinni á ári - en hugsunarhátturinn -  það er í rauninni hann sem myndi hugsanlega geta hjálpað okkur ef við yfirfærum þetta á allt annað sem við eigum, er heilt og við erum að henda,“ sagði Guðmundur Tryggvi.