Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björgunarsveitir kallaðar út

05.12.2021 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/Þorbjörn - RÚV
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í Borgarnesi, á höfuðborgarsvæðinu og í Grindavík vegna óveðursins sem gengur nú yfir suðvestanvert landið. Fólk hefur óskað eftir aðstoð björgunarsveita vegna foks; lausamunir og þakplötur hafa tekist á loft. Ekki hafa þó borist fregnir af tjóni að ráði.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg barst fyrsta útkall björgunarsveita rétt fyrir ellefu, þegar tilkynnt um fok á þakplötum, þakklæðningum og lausamunum í Borgarnesi. Um hádegisbil bætti enn í vindinn og voru björgunarsveitir víða á suðvesturhorni landsins kallaðar út, nánar tiltekið á Kjalarnesi, í Mosfellsbæ, Reykjavík, Hafnarfirði, Grindavík og á Suðurnesjum. Þær útkallsbeiðnir sneru að foktjóni vegna óveðurs, þakklæðningar, girðingar, ruslatunnuskýlis, garðskúrs og annarra lausamunir. Í Mosfellsb fauk vinnuskúr á hliðina og gámur fauk við höfnina í Grindavík.

Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í hádegisfréttum RÚV að veðurhamurinn sé nú í hámarki frá Snæfellsnesi suður og austur með að Reykjanesi og Hellisheiði. Enn á eftir að bæta í vind undir Eyjafjöllum og á norðvestanverðu landinu. Ekki fer að draga úr veðri að ráði fyrr en um kvöldmatarleytið og enn síðar á norðvestanverðu landinu.

Mesti vindur á láglendi hefur mælst við Reykjanesvita, 35,5 metrar á sekúndu, Fagradalsfjall, 33,8 metra á sekúndu, og í Ólafsvík, 31,8 metrar á sekúndu. Lögregla hefur lokað fyrir umferð að gossvæðinu við Fagradalsfjalls vegna veðurhamsins. Mesti veðurhamurinn á hálendinu er í Kerlingarfjöllum, 48,1 metrar á sekúndu.

Uppfært 13:37 með ítarlegri upplýsingum um útköll.