Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísland Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Pálsson

Ísland Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna

04.12.2021 - 16:34
Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum varð í dag Evrópumeistari eftir hnífjafna baráttu við Svía í úrslitunum á EM í Portúgal. Ísland fékk 57.250 stig í heildina eða jafnmörg stig og Svíþjóð en Ísland vinnur með því að fá hærri einkunn á fleiri áhöldum.

Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2012 sem Ísland verður Evrópumeistari kvenna í hópfimleikum en síðastliðin þrjú Evrópumót hefur liðið þurft að lúta í lægra haldi fyrir Svíþjóð. 

Ísland byrjaði á trampólíni og það gekk nokkurn veginn fullkomlega upp og stelpurnar fengu 17,750 í einkunn, einu og hálfu stigi meira en þær fengu í undanúrslitunum. Á sama tíma fengu Svíar ótrúlegar einkunnir bæði á gólfi og dýnu en næsta áhald Íslands var gólfið. Það er ekki hægt að segja annað en að æfingar Íslands hafi verið stórglæsilegar enda uppskáru þær 22,300 stig fyrir, hæstu einkunn mótsins.

Aðeins munaði 0,6 stigum á Íslandi óg Svíþjóð fyrir lokaumferðina, Svíarnir með forystuna og áttu eftir sínar trampólín æfingar. Ólíkt öðru hjá Svíunum í dag voru trampólínæfingarnar ekki hnökralausar en þær uppskáru samt einkunnina 16,600 og voru samtals með 51,250 stig. Ísland þurfti því að minnsta kosti 17,200 stig á dýnunni.

Í annarri umferð á dýnunni meiddist fyrirliði liðsins, Andrea Sif Pétursdóttir, þegar hún lenti illa. Stelpurnar kláruðu þriðju og síðustu umferðina stórslysalaust og þá var það bara að bíða. Einkunnin reyndist akkúrat 17,200 og Ísland og Svíþjóð því jöfn að stigum með samanlagt 51,250 stig. Ísland varð hins vegar Evrópumeistari þar sem stelpurnar unnu tvö af þremur áhöldum, gólfæfingarnar og trampólín.

Stigatöfluna má sjá hér.