Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fundaði með ríkislögreglustjóra um kynferðisbrotamál

04.12.2021 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Gunnarsson innanríkisráðherra kallaði ríkislögreglustjóra á sinn fund í vikunni til að fara yfir stöðu og meðferð kynferðisbrotamála hér á landi. Hann segir mikilvægt að efla réttarfarskerfið og skapa umræðu sem byggi á málefnalegum grunni.

 

Jón Gunnarsson tók við lyklavöldum í dómsmálaráðuneytinu á þriðjudag af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Nýtt innanríkisráðuneyti tekur til starfa um áramótin þegar skiptingu málefnasviða innan Stjórnarráðsins lýkur.

Jón segir að áfram verði unnið að réttarbótum fyrir þolendur kynferðisfbeldis. Hann kallaði ríkislögreglustjóra á sinn fund í vikunni til að fara yfir næstu skref í þeirri stefnumótun sem hefur verið í gangi innan lögregluembætta hvað varðar kynferðisbrot.

„Ég tel að til þess að ná alvöru tökum á þessum vágesti í íslensku samfélagi, hvort sem við erum að tala um þessi byrlunarmál, ofbeldismál eða kynferðisofbeldismál. Við þurfum að virkja samfélagið. Þetta þarf að verða þannig að við erum öll að standa vaktina. Við horfum ekki fram hjá hlutunum. Það er talið að það séu ekki nema 20 prósent af þessum glæpum þegar kært. En með auknu trausti á réttarfarskerfið og rannsóknarhlutann þá mun því fjölga og við þurfum að gera ráð fyrir fjármagni til að mæta því í framtíðinni, “ segir Jón.

Jón segir að umræðan um kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum sé mikilvæg og varpi ljósi á þann vanda sem við er að etja.

„Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að við getum haldið áfram á þeirri vegferð og það verði einhvers konar samfélagsleg vitund til hjá okkur um það að við berum öll ábyrgð í þessu á að uppræta þetta mein í íslensku samfélagi,“ segir Jón.

Jón hefur verið gagnrýndur fyrir að ráða Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmann, í starf aðstoðarmanns. Brynjar hefur meðal annars gagnrýnt aðgerðahópinn Öfga, sem hefur einmitt það markmið að berjast gegn kynferðisofbeldi.

„Ég sagði áðan að það væri mikilvægt að umræðan væri málefnaleg. Og Brynjar hefur vissulega gagnrýnt það þegar honum þykir umræðan vera ómálefnaleg. Það er ekki gott heldur í svona viðkvæmum málum að við séum með einhverja öfgamálflutning. Við þurfum að vanda okkur í þessu vegna þess að hér er um alveg um sérstaklega viðkvæm mál að ræða,“ segir Jón. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV