Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þyngdi tvo nauðgunardóma og staðfesti þann þriðja

03.12.2021 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsréttur sakfelldi í dag þrjá karlmenn fyrir nauðgun. Refsingar við brotum tveggja mannanna voru þyngdar í Landsrétti frá því sem ákveðið var í upphaflegum dómum í héraði. Einn dómanna var vegna nauðgunar árið 2008 og annar vegna brots stuðningsfulltrúa gegn fötluðum ungum manni sem er með vitsmunaþroska sem samsvarar þroska átján mánaða gamals barns.

Stuðningsfulltrúi notfærði sér algjört varnarleysi skjólstæðings

Maður sem hafði um átta ára skeið verið kennari unga mannsins og var síðar aðstoðarmaður hans í liðveislu var sakfelldur fyrir að nauðga unga manninum með því að fróa honum þrisvar þegar maðurinn var með hann í liðveislu. Málið uppgötvaðist þegar móðir brotaþola varð vör við sæði í nærbuxum hans. Í dómnum segir að brotaþoli sé með vitsmunaþroska sem samsvari þroska átján mánaða  gamals barns, hann sé hvorki fær um að láta í ljós sjálfstæðan vilja til kynmaka né hafi hann nokkurn skilning á kynferðislegu sambandi milli einstaklinga. 

Maðurinn var sakfelldur fyrir alvarleg brot gegn ungum fötluðum manni sem honum var trúað fyrir en nýtti sér ítrekað algjört varnarleysi brotaþola og skeytti í engu um hann og stöðu hans, segir í dómi Landsréttar. Maðurinn er sagður hafa nýtt sér gróflega þá yfirburðastöðu sem hann var í gagnvart brotaþola vegna trúnaðarsambands hans.

Maðurinn fékk tveggja ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur en Landsréttur þyngdi refsinguna í þriggja ára fangelsi. Maðurinn er ekki nafngreindur í dóminum.

Skilorðsbundið vegna langs tíma frá broti

Eitt málið er vegna nauðgunar sem var framin í ágúst árið 2008. Maðurinn beitti hana ofbeldi og ólögmætri nauðung og hafði samræði við konuna. Samskipti hans við konuna í samskiptaforritinu Messenger voru meðal sönnunargagna og lýstu sekt mannsins. Þar að auki kom fram vitni sem sagði manninn hafa rætt við sig í síma árið 2018 um minningarslitur af harkalegu kynlífi en þá hafi hann sagt að það væri ekki nauðgun eða þvingun. 

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar en Landsréttur þyngdi dóminn í þrjú ár. Báðir skilorðsbundu dóminn að fullu vegna þess hversu langt er liðið frá brotinu og þess að maðurinn hafi ekki framið önnur brot.

Í dómi Landsréttar segir að konan hafi verið sjálfri sér samkvæm um atriði málsins frá upphafi. Hún hafi gefið trúverðugar skýringar um hvers vegna hún kærði málið ekki til lögreglu í upphafi. Að auki séu lýsingar hennar á gjörðum ákærða trúverðugar og fái stoð í málsgögnum.

Maðurinn á að greiða brotaþola tvær milljónir króna í bætur. Maðurinn er ónafngreindur í dóminum. Á Vísi segir að þetta sé Jón Páll Eyjólfsson, fyrrverandi leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, sem var sakfelldur 30. nóvember í fyrra fyrir nauðgun. Það passar við dagsetningu úrdráttar úreldri dómi úr héraði sem birtist með dómi Landsréttar í dag.

Staðfestir dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra

Landsréttur staðfesti tveggja og hálfs árs fangelsisdóm yfir Karol Wasilewski sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Einn dómari vildi þyngja refsinguna í þriggja ára fangelsi.

Karol var sakfelldur fyrir að nauðga konu á heimili hennar í febrúar árið 2019. Hann beitti hana ofbeldi og ólögmætri nauðung þegar hann ýtti konunni inn í svefnherbergi og á rúm og nauðgaði henni. Árásinni lauk ekki fyrr en konan komst undan. Meðal sönnunargagna gegn manninum voru skilaboð sem hann sendi konunni síðar nóttina sem hann nauðgaði henni. Þar baðst hann afsökunar á framkomu sinni og kenndi kannabisneyslu um. Maðurinn neitaði því síðar að hann hefði verið að viðurkenna nauðgun en skýringar hans á skilaboðunum þóttu ótrúverðugar. Framburður konunnar var hins vegar skilmerkilegur og studdur gögnum málsins.

Auk fangelsisrefsingar var maðurinn dæmdur til að greiða konunni 1,8 milljónir króna í bætur.

Fréttin var uppfærð 17:21 með nafni Jóns Páls Eyjólfssonar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV