Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sjö af hverjum tíu Pólverjum á Íslandi upplifa mismunun

03.12.2021 - 12:07
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Nærri sjö af hverjum tíu Pólverjum hafa upplifað mismunun vegna þjóðernis, samkvæmt nýrri rannsókn sem um þúsund Pólverja hér á landi tóku þátt í. Meira en helmingur hefur orðið fyrir hatursorðræðu.

Vildi skoða málið betur

Í sumar fengu Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, og Eva María Ingvadóttir, meistaranemi, styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka birtingarmyndir haturs í garð Pólverja á Íslandi. „Í starfi mínu sem ráðgjafi fjölmenningar hjá Akureyrarbæ hef ég stundum lent í því að fólk hefur greint frá eða deilt með mér sögum af t.d. haturstjáningu eða mismunun. Eftir að ég kynnti mér smá það sem Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræði hér við Háskólann á Akureyri, hefur verið að vinna að ákvað ég bara svona að tengja saman þessa tvo heima og hafði samband við hana og sagði, eigum við ekki að skoða þennan málaflokk aðeins betur, segir Eva María. 

Fékk tæplega þúsund svör

Niðurstöðurnar eru sláandi því tæplega 70% sögðust hafa hafa upplifað mismunun á grundvelli þjóðernis. Tæp 60% höfðu orðið fyrir hatursorðræðu og 20% hatursglæp. Rúmlega 20 þúsund Pólverjar búa á Íslandi og tóku um þúsund þeirra þátt í rannsókninni. Þeim var boðið að lýsa aðstæðum sínum og margar ljótar sögur komu fram. 

„Mér var tjáð að enginn vildi hafa þig hérna, og það er eins gott fyrir mig að hypja mig aftur heim"

„Yfirmaðurinn minn sagði að það væri synd að Hitler hafi ekki drepið okkur öll á meðan á hernáminu stóð.”

Tók á að lesa sögurnar

Eva, sem sjálf er af pólskum ættum segir að það hafi tekið á að lesa sumar af þessum lýsingum. „Það var mjög erfitt oft á tíðum að lesa þetta yfir og þýða þá setur maður sig í spor annarra og það var oft á tíðum mjög erfitt að lesa þessar lýsingar.“