Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Pabbi Ragnars sagði honum að vara sig á Santa Barbara

Mynd: Víðsjá / RÚV

Pabbi Ragnars sagði honum að vara sig á Santa Barbara

03.12.2021 - 09:35

Höfundar

Ragnar Kjartansson myndlistarmaður opnar um helgina sýningu í nýju samtímalistasafni í miðborg Moskvu. Verkið kallast Santa Barbara, eftir samnefndri bandarískri sápuóperu, sem byrjað var að sýna í rússneska sjónvarpinu viku eftir hrun Sovétríkjanna.

Ragnar Kjartansson endurskapar sápuóperuna Santa Barbara, í samstarfi við Ásu Helgu Hjörleifsdóttur leikstjóra, í nýju verki sem sýnt verður í GES-2, gríðarstórri rússneskri listasamstæðu í miðri Moskvu, þar sem ríflega aldargömlu orkuveri, sem áður knúði stjórnarsetrið Kreml, hefur verið umbreytt í stærðarinnar menningarmiðstöð af arkitektinum Renzo Piano.

Líkt og oft í verkum Ragnars þá er það sköpunarferlið sjálft sem er kjarni verksins. „Mér finnst svo heillandi þegar verið er að skapa hlutinn frekar en hluturinn sjálfur,“ segir Ragnar í viðtali við Guðna Tómasson í Víðsjá á Rás 1, en þátturinn föstudaginn 3. desember er helgaður sýningu Ragnars í Moskvu. 

Í þættinum er rætt við Ragnar um listaverkið Santa Barbara, en hjarta sýningarinnar er margra mánaða langur gjörningur eða innsetning þar sem rússneskir leikarar leika einn þátt á dag af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara, en sýningar á henni hófust skömmu eftir fall Sovétríkjanna á sínum tíma. Yfirleikstjóri þess verkefnis er Ása Helga Hjörleifsdóttir.

Umsjón með Víðsjá í dag hefur Guðni Tómasson sem er staddur í Moskvu en viðmælendur hans eru auk Ragnars Kjartanssonar þau Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Unnar Örn Jónsson Auðarson, Hildigunnur Brigisdóttir, Magnús Sigurðarson og Francesco Manacorda.
 Mynd: Víðsjá - RÚV
Húsnæði GES-2 listamiðstöðvarinnar var áður orkuver.

Sýningin er engin smásmíði. Hún stendur opin í 100 daga og á hverjum degi verður heill þáttur sápuóperunnar endurskapaður í kvikmyndaveri sem sett hefur verið upp í miðju safnsins, með hóp af rússneskum leikurum, tæknimönnum, tónlistarfólki, leikmyndahönnuðum og búningahönnuðum. „Á hverjum einasta degi er þetta tekið og sett upp í skjái sem eru á efri hæðinni og hægt og rólega verður til þetta vídeó. Þetta verður ógeðslega langt listaverk í lokin, með þátt eftir þátt af Santa barbara,“ segir listamaðurinn.

Fæðingarsaga hins nýja Rússlands

Hugmyndin að verkinu skaut rótum þegar Ragnar las grein þar sem því var haldið fram að illmögulegt væri að skilja hið nýja Rússland án þess að kynna sér sápuóperuna Santa Barbara og áhrif hennar á rússneskt þjóðfélag. „Það var byrjað að sýna hana viku eftir fall Sovétríkjanna á besta tíma í sjónvarpi, klukkan hálf níu, öll fjölskyldan sat límd við þetta.“

Skilin á milli þess sem áður var í boði voru afgerandi. „Þú ert að tala um Sovétríkin, þar sem fólk lék bara skák og las ljóð, í sjónvarpinu voru þættir um verkfræði. Skyndilega hrynja Sovétríkin og í sjónvarpinu er Santa Barbara, sem er túrbó-útgáfa af kapítalismanum. Þetta hafði mjög djúp áhrif á rússneska þjóðarsál, vilja sumir meina.“

Ragnar Kjartansson is restaging 100 episodes of US soap ‘Santa Barbara’ at GES-2, Moscow © Luhring Augustine, New York, and i8 Gallery, Reykjavik
 Mynd: Luhring Augustine - i8

Verkinu lýsir Ragnar sem tilfinningalegum skúlptúr. „Hver einasta sena í Santa Barbara er „white noise“ af tilfinningum. Það er allt skrúfað í botn, sem er bæði fyndið og fallegt. Þetta er harmrænt og stórt,“ segir hann. „Hér verða rússneskir leikarar að leika Santa Barbara en um leið að leika sína eigin sögu. Þetta er fæðingarsaga hins nýja Rússlands.“

Verkið fjallar þó ekki aðeins um Rússland. „Þetta er bara um okkar sögu. Þetta er eitt það stærsta sem gerðist í manns eigin æsku, þegar Sovétríkin hrundu, og þetta hafði áhrif út um allan heim. Mér fannst þessi nálgun svo rosalega áhugaverð, að poppmenning og hlutir sem virðast ekki skipta neinu máli skipti samt svo ótrúlega miklu máli.“

Hræðilegt amerískt sull

Sjálfur kynntist Ragnar sápuóperunni Santa Barbara á yngri árum, en þættirnir voru sýndir á Stöð 2 skömmu eftir stofnun sjónvarpsstöðvarinnar 1986. „Pabbi minn, hann Kjartan, var góður sósíalisti í Alþýðubandalaginu, og þegar Stöð 2 sýndi Santa Barbara þá sagði hann mér að vara mig á þessum þætti: „Ef þetta er í gangi þegar þú ert í heimsókn hjá vini þínum skaltu ekki horfa á þetta. Þetta er hræðilegt amerískt sull,“ sagði hann. Þess vegna held ég að það hafi kviknað á perunni hjá mér. Hvernig svona popp-efni hefur mikil áhrif á okkur, það vakna til lífsins nýjar væntingar og draumar þegar Santa Barbara byrjar í sjónvarpinu.“

Í þættinum er rætt við Ragnar um listaverkið Santa Barbara, en hjarta sýningarinnar er margra mánaða langur gjörningur eða innsetning þar sem rússneskir leikarar leika einn þátt á dag af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara, en sýningar á henni hófust skömmu eftir fall Sovétríkjanna á sínum tíma. Yfirleikstjóri þess verkefnis er Ása Helga Hjörleifsdóttir.

Umsjón með Víðsjá í dag hefur Guðni Tómasson sem er staddur í Moskvu en viðmælendur hans eru auk Ragnars Kjartanssonar þau Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Unnar Örn Jónsson Auðarson, Hildigunnur Brigisdóttir, Magnús Sigurðarson og Francesco Manacorda.
 Mynd: Víðsjá - RÚV

Þegar Ragnar og Ása sökktu sér í sögu sápuóperunnar við undirbúning verksins settu þau sig í samband við upprunalega höfunda Santa Barbara, þau Bridget og Jerome Dobson. „Þau eru fáránlega skemmtileg og maður skilur hvað það er rosalega mikil íronía í þessum þáttum.“

Það kom svo á daginn í samtölum þeirra að Bridget var barnabarn Victor L. Berger, stofnanda bandaríska sósíalistaflokksins, og amma hennar hafði að sögn farið á galeiðuna með sjálfum Jósef Stalín. „Hún er af einhverjum harðkjarðna sósíalískum-amerískum bakgrunni.“

Jerome átti einnig merkileg tengsl við rússnesku byltinguna. Meðan hann stundaði nám við Stanford-háskóla í Kaliforníu kynntist hann gömlum manni á skólabókasafninu sem hann fylgdi heim á hverju kvöldi. „Þessi gamli maður var Alexander Kerensky, sem steypti Nikulási öðrum af stóli og sat við völd í Rússlandi í átta mánuði þar til Bolsévikarnir gerðu októberbyltinguna. Ég fékk gæsahúð þegar ég áttaði mig á þessu. Það eru engar tilviljanir hérna. Núna grínast menn með það að Kerensky hafi komið af stað atómsprengju, því hans metnaður var að knésetja Bolsévikana í Sovétríkjunum, og hann knésetti þá með hugmyndunum sem hann setti í hausinn á Jerome litla Dobson sem gerði svo Santa Barbara og stútaði með því endanlega kommúnismanum.“

Sýning Ragnars í GES-2 í Moskvu opnar 4. desember. Fjallað verður um verkið í Víðsjá á Rás 1, 3. desember klukkan 17:00.

Tengdar fréttir

Myndlist

Heimsækir leiði Muggs til að fá ráð fyrir sýningar

Kvikmyndir

„Ég varð bara stelpa og mér fannst það æðislegt“

Tónlist

Óendanleg vögguvísa Ragnars flutt í kirkju í Mílanó

Myndlist

Ragnar Kjartans setur upp sápuóperu í Moskvu