Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Omíkron og meint jólaboð

03.12.2021 - 09:57
Mynd: EPA-EFE / EPA
Umræðan um omíkron er í algleymingi í Bretlandi, hvað eigi að gera, í landi þar sem ríkisstjórnin hefur verið áberandi óviljug til að grípa til hamlandi veiruráðstafana. Enn frekar stórmál þegar jólin eru fyrir dyrum. Jólaboðin eru ákaft rædd, ekki aðeins jólaboðin í ár heldur líka jólaboð í Downing stræti í fyrra. Pólitíska spurningin er hvort COVID reglurnar þá hafi verið brotnar, sem væri stjórnarandstöðunni kærkomið dæmi um að forsætisráðherra telji sig yfir aðra hafinn.

Omíkron í breskum fréttum

Það er fátt sem fer jafn vel í breska fjölmiðla og eitthvað sem gæti verið hættulegt – og þetta heyrist mjög í umfjöllunin um omikrón, nýja Covid afbrigðið: allt í óvissu með tilfelli, hversu smitandi nýja afbrigðið væri, virkni bóluefna óviss – og jólahaldið í hættu.

Það er vika síðan að bresk omíkron-tilfelli voru staðfest. Strax þrjú tilfelli fyrstu helgina og svo hrina tilfella í Skotlandi. Sum alveg ótengd Suður-Afríku, þar sem ómíkron var fyrst greint.

Breska stjórnin brást seint við COVID í upphafi

Alveg síðan COVID kom upp í ársbyrjun í fyrra hefur breska stjórnin verið ákaft gagnrýnd fyrir að bregðast of seint við og sinna ekki tilmælum vísindamanna. Í Englandi var öllum veiruhömlum aflétt í júní, aðrir landshlutar hafa farið sér hægar. Um þær mundir sem hömlum var aflétt voru um tólf þúsund tilfelli á dag í Bretlandi en hafa síðan leikið á bilinu 25 þúsund upp í rúmlega 40 þúsund. Í ársbyrjun, þegar verst var, voru dagleg tilfelli um 60 þúsund.

Einbeitt stefna gegn því að setja aftur á veiruhömlur

Stefna bresku stjórnarinnar var að sama hvað tilfellum liði: engar hömlur aftur meðan sjúkrahús höfðu við. Sem þau gerðu svona nokkurn veginn. Frá starfsfólki á sjúkrahúsum hér í nágrenninu heyrði Spegillinn sögur um að þó vissulega væru COVID sjúklingar færri en áður væri á stundum alveg á nippinu að spítalarnir stæðust álagið.

Omíkron breytir andrúmsloftinu

En omíkron er að breyta andrúmsloftinu hér í Bretlandi eins og víðar. Kannski af því stjórnin hefur svo þráfaldlega verið sökuð um seinagang og sinnuleysi, og stendur höllum fæti í öðrum málum, þá er nú ekkert verið að tvínóna við hlutina. Strax sett á ferðabann, beinum flugum til Suður-Afríku aflýst í nokkra daga meðan sóttkví á hóteli fyrir ferðalanga þaðan var skipulögð. COVID-reglur hertar: annars dags skimun verður aftur að vera PCR skimun, antigen-próf ekki nóg. Og grímuskylda, en aðeins í almenningsfarartækjum og búðum.

Enn margt á huldu um omíkron

Omíkron-afbrigðið var fyrst greint í Suður-Afríku í sýni frá 8. nóvember.  Nú eru aðeins nokkrir dagar í niðurstöður rannsókna um áhrif bóluefna á omíkron-afbrigðið, samkvæmt upplýsingum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Framvindan í Suður-Afríku bendir til að omíkron sé meira smitandi en delta-afbrigðið, að fólk sem hefur fengið COVID geti smitast aftur. Enn of snemmt að segja um hvort fólk lendi frekar á spítala með omíkron. Delta-afbrigðið er eftir sem áður lang algengast á Bretlandi en ljóst, eins og víðar, að omíkron hefur víða stungið sér niður.

Vísindamenn vilja forðast jólasamkomur, ekki forsætisráðherra

En eitt hefur ekki breyst: ráðherra, sem fyrr, margsaga um hvað best sé að gera. Í vikunni ráðlagði Jenny Harries fyrrum aðstoðarlandlæknir Englands fólki að forðast jólasamkomur. Boris Johnson forsætisráðherra hafnaði þessu eins og skot. Það þyrfti aðeins að grípa til sérstakra ráðstafana til að hindra að omíkron bærist til landsins og dreifðist, þar til vitað væri hvað við væri að eiga.

Hófstill jólaráð: ekkert kossaflens undir mistilteininum

Ráðherrar hafa ráðlagt grímunotkun á öllum samkomum, antigen próf fyrir mannamót. Thérèse Coffey vinnuráðherra var spurð hvað hún aðhylltist: engar jólasamkomur eða bara halda sínu striki eins og forsætisráðherra boðar. Bara best að sleppa kossaflensi undir mistilteininum, sagði Coffey.

Næstu ár undirbúin með 114 milljónum bóluefnisskammta

Breska stjórnin undirbýr nú næstu tvö árin með því að kaupa 114 milljónir skammta af bóluefni. Albert Bourla forstjóri Pfizer lyfjafyrirtækisins telur að fólk muni þurfi árlegan örvunarskammt.

Stórpólitískt efni: meint jólaboð í fyrra

En meðan flestir eru kannski með hugann við jólaboðin í ár þá snýst pólitíska umræðan um jólapartí í fyrra. Fréttir um alla vega tvö ef ekki þrjú jólaboð í Downing stræti þá eins og heyra mátti í fyrirspurnartíma forsætisráðherra í þinginu í gær. – Meðan milljónir manna bjuggu við Covid-lokanir var þá haldið boð í Downing stræti fyrir tugi manns 18. desember? spurði Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins.

Forsætisráðherra svaraði að bragði: öllum reglum fylgt í númer tíu. – Það er, neitaði ekki umræddri samkomu. Gildran í spurningunni er að samkvæmt reglum mátti ekki halda boð. Ef það var haldið boð voru reglurnar brotnar.

Jólaboð í fyrra merki um að forsætisráðherra og stjórnin telji sig yfir almenning hafin

En af hverju er verið að ræða jólaboð í fyrra? Eins og alltaf: Forsætisráðherra og hans stjórn líti svo á þeir þurfi ekki að fylgja sömu reglum og aðrir, sagði Starmer. – Rauður þráður í gagnrýni stjórnarandstöðunnar: stjórnin telji sig hafin yfir almenning.

Jólaóvissan algjör en eitt er víst að alltaf verður...

Sem fyrr, óvissan algjör hér í Bretlandi nú á jólaföstunni. Nítjánda desember í fyrra var jólunum nokkurn veginn aflýst, Bretum þá sagt að vera heima. Hluti landsmanna sat því uppi með matarforða fyrir stórfjölskylduna, sem ekki mátti koma og þeir sem höfðu ætlað sér í jólamatinn að heiman áttu í mesta basli með að ná sér í mat. Ef marka má fyrri reynslu er ómögulegt að segja hvað bíður Breta á jólunum. En samt, örugglega gaman, eins og segir í kvæðinu um Bráðum koma blessuð jólin.