Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óljós kostnaður við fjölgun ráðuneyta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Þór Ægisson - RÚV
Kostnaður við fjölgun ráðuneyta í Stjórnarráðinu liggur ekki fyrir. Einhver störf eiga eftir að flytjast á milli ráðuneyta, en allar líkur eru á því að starfsfólki hins opinbera eigi eftir að fjölga með fjölgun ráðuneyta, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu. Verkefnisstjóri hefur verið ráðinn til að skipuleggja aðalskrifstofu nýs ráðuneytis.

Ásdís Halla Bragadóttir verður verkefnisstjóri hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu við undirbúing nýs vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Auk þess að skipuleggja nýja aðalskrifstofu aðstoðar hún meðal annars vioð að skipta ráðuneytinu í fagskrifstofur. Hversu mörg störf flytjast á milli ráðuneyta er enn óljóst, eða þá hversu mörg ný störf verða til við fjölgun ráðuneyta. Árið 2020 voru 60 stöðugildi í atvinnumála- og nýsköpunarráðuneytinu og 69 stöðugildi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Vitað er að helsti kostnaðaraukinn við fjölgun ráðuneyta er launakostnaður. Mánaðarlaun ráðherra nema nú um 2,1 milljón króna. Ráðherra hefur heimild til að ráða til sín tvo aðstoðarmenn, auk þess sem hann fær bílstjóra og ritara í ráðuneyti sitt.

Árið 2020 voru meðallaun starfsmanna á skrifstofum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og atvinnumála- og nýsköpunarráðuneytisins 1,2 milljónir króna á mánuði. Endanlegur fjöldi starfsmanna á skrifstofu hvers ráðuneytis liggur ekki fyrir fyrr en að lokinni afgreiðslu þingsályktunartillögu um nýju ráðuneytin, sem lögð verður fyrir þingið í desember.