Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Krísukanslarinn kvaddur

03.12.2021 - 20:58
Mynd: EPA-EFE / EPA
Á hráslagalegu desemberkvöldi var Angela Merkel, kanslari Þýskalands kvödd af þýska hernum. Merkel sat á rauðum palli fyrir framan aðra gesti við varnarmálaráðuneytið í Berlín og fylgdist með lúðrablásurum marséra í bjarma frá kyndlum. Athöfnin sem kölluð er Der grosse Zapfenstreich er sá mesti heiður sem þýski herinn getur nokkrum sýnt og var eiginlega hin opinbera kveðja til Merkel eftir sextán ár á kanslarastóli.

Merkel tók við völdum fyrir sextán árum eftir að flokkur hennar CDU, Kristilegir demórkratar, fékk einu prósentustigi meira í kosningum en SDP, Jafnaðarmannaflokkur Gerhards Schröders. Það var flestum ljóst strax eftir kosningarnar að sigurvegari þeirra væri Angela Merkel. Öllum nema Schröder sem hélt því staðfastlega fram í leiðtogaumræðum (sem þjóðverjar kalla reyndar Elephantenrunde eða fílarúnt á kosninganóttina að flokkur sinn hefði unnið sigur og ekki kæmi til greina að sleppa kanslararaembættinu. Hann myndi aldrei taka þátt í stjórn undir forystu Merkel. 

En tveimur mánuðum eftir kosningarnar í nóvember árið 2005 myndaði Merkel stóra samsteypustjórn með þátttöku Jafnaðarmanna og eigin systurflokks CSU, sem er flokkur kristilegra í Bæjaralandi. 

Hver krísan fylgdi annarri

Merkel varð þaulsetin á valdastóli, en hún þurfti líka að takast á við ófáa krísuna og ein tók við af annarri. Hún hefur leitt Þjóðverja í gegnum fjármála-, efnahags- og evrukreppu og þegar þær voru afstaðnar tók við flóttamannakrísa og heimsfaraldur sem ekki sér enn fyrir endann á. 
Upphafsorð ræðu Merkel voru á margan hátt dæmigerð fyrir þá ímynd sem skammtafræðingurinn og prestsdóttirin frá Austur-Þýskalandi hefur skapað sér. Hún stæði þarna full þakklætis og auðmýktar. Auðmjúk andspænis embætti sem hún hafi gegnt svo lengi og þakklát fyrir traustið til þess. Hún þakkaði líka þeim sem stæðu vaktina í baráttunni við veiruna. 

Strangar takmarkanir á þátttöku óbólusettra samþykktar

Verulega var bætt í sóttvarnir í Þýskalandi í gær vegna fjórðu bylgju faraldursins og útbreiðslu omíkron-afbrigðisins. Merkel sagði það gert í nafni samstöðu þjóðarinnar gegn vánni. Herða á sókn í bólusetningum og einungis þeir sem hafa verið bólusettir eða hafa nýlega jafnað sig á COVID-19 mega fara á veitingastaði, kvikmyndahús og margar verslanir. Óbólusettir megi einungis hitta tvo utan eigin heimilisfólks og flugeldar verða bannaðir um áramótin. Merkel sagði líka að til greina kæmi að setja á bólusetningarskyldu en það yrði ekki gert án samþykkis þingsins.

 

 

Þýskaland ekki lengur vesalingur Evrópu

Þetta er andrúmsloftið þegar Merkel kveður, hún er á stundum sögð hafa leitt þjóð sína úr þrengingum, sem við blöstu þegar hún tók við og Þýskaland var kallað sjúklíngur eða vesalingur álfunnar, í að vera óskoraður leiðtogi. Ýmislegt hefur yfir hana dunið. Í fjármálakreppunni stóru varð hún til dæmis holdgerfingur hinna vondu lánardrottna Grikkja sem kröfðust þess að skorið væri niður í útgjöldum og skattar hækkaðir. Atvinnuleysi í Grikklandi fór í hæstu hæðir og hagkerfi þeirra skrapp saman um fjórðung í kjölfarið. Árið 2012 veifuðu mótmælendur í Aþenu spjöldum þar sem Merkel var með Hitlersskegg og í heimsóknum hennar nokkrum árum síðar bönnuðu grísk yfirvöld mótmæli án þess að tækist að koma í veg fyrir þau. Merkel hefur vitnað til þessara samninga við grísk yfirvöld sem þess erfiðasta sem hún hafi þurft að takast á við í embættistíð sinni. 

Viðbrögð í flóttamannakrísunni vöktu aðdáun en voru líka umdeild

Haustið 2015 ákvað Merkel nánast upp á sitt einsdæmi að opna landamæri Þýskalands fyrir flóttafólki sem streymdi frá Sýrlandi í tugþúsundatali og var fast við illan kost í búðum í Ungverjalandi. Þetta aflaði henni mikillar virðingar, ekki síst á alþjóðavettvangi. Tímaritið Time valdi hana manneskju ársins vegna mennsku hennar, gæsku og umburðarlyndis. Aðgerðirnar voru umdeildar heimafyrir en Merkel sat við sinn keip og sagði að ef þyrfti að biðjast afsökunar á því að sýna vinarþel þegar neyð ríkti þá væri það ekki hennar land.

Merkel var ekki eftirlæti allra leiðtoga

Það var ekki kært með Merkel og öllum þeim þjóðarleiðtogum sem hún hitti fyrir á sínum langa ferli. Fræg er mynd sem tekin var á leiðtogafundi G-7 ríkjanna þar sem Merkel stendur í þvögu leiðtoganna, hallar sér einörð fram á borðið og einblínir á Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseta sem situr við en við borðsendann með kergjusvip. Á heimleið af þeim fundi sagði Merkel að þeir tímar þegar þjóðirnar hefðu getað treyst hver á aðra væru löngu liðnir. Í upprifjun Frankfurter Allgemeine Zeitung um minnisverð augnablik úr embættistíð Merkel er líka rifjað upp þegar Vladimir Pútin tók á móti henni í sumarhöll sinni í Sotchi í Rússlandi. Vitandi fullvel að kanslarinn er hrædd við hunda tók hann stóran svartan hund sinn með í myndatöku til að slá hana út af laginu. Það tókst ekki þó greina megi nokkurn ugg í svip hennar. 

Undirstrikaði mikilvægi samkenndar og vinnu þvert á landamæri

Merkel sagði í gær að bæði efnahagskreppan 2008 og flóttamannavandinn 2015 hefðu sýnt greinilega hvað samstarf ríkja þvert á landamæri skipti miklu. Enn blasi við stór úrlausnarefni. Flóttamannavandinn er ekki horfinn og loftslagsmálin fela í sér miklar áskoranir. Hún brýndi áheyrendur til að setja sig í spor annarra. Horfa á heiminn með þeirra augum, líka þegar sjónarhorn og hagsmunir séu óþægilegir og framandi.