Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hörgull á rafmagni leiðir til olíunotkunar verksmiðja

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fiskimjölsverksmiðjur í landinu gætu þurft að grípa til olíu í stað rafmagns við vinnslu sína í vetur en Landsvirkjun hefur ákveðið að láta þeim nægja 25 megawött í janúar. Á fullum afköstum geta verksmiðjurnar nýtt um 100 megawött.

Þetta kemur fram í Morgunblaði dagsins og sagt að skerðingin geti haldið áfram í vetur krefjist aðstæður þess. Framundan er einhver stærsta loðnuvertíð um árabil.

Blaðið hefur eftir Tinnu Traustadóttur, framkvæmdastjóra sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun að eftirspurn eftir raforku hafi aukist mjög, viðskiptavinir fullnýti raforkusamninga sína og vilji kaupa meira.

Þetta eigi meðal annars við um ál- og kísilmálmframleiðslu og starfsemi gagnavera.

Fiskimjölsverksmiður, fiskþurrkanir og fjarvarmaveitur á köldum svæðum sem samið hafi um kaup á skerðanlegri orku þurfi að sæta skerðingu á afhendingu orku sé hún ekki næg til.

Það eigi við um lítinn hluta viðskiptavina Landsvirkjunar en slík fyrirtæki njóti þess þó í verði. Auk þessa mikla álags á raforkukerfinu mun ástandið í vatnsbúskap á hálendinu vera verra en löngum hefur verið.