Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Erfið leið en við ætlum að berjast um titilinn“

epa08860856 Norway's Head coach Thorir Hergeirsson (C) during the EHF Euro 2020 European Women's Handball preliminary round match between Norway and Poland at Sydbank Arena in Kolding, Denmark, 03 December 2020.  EPA-EFE/BO AMSTRUP  DENMARK OUT
 Mynd: EPA

„Erfið leið en við ætlum að berjast um titilinn“

03.12.2021 - 07:00
Þórir Hergeirsson og hans konur í norska landsliðinu hefja leik á HM kvenna í handbolta á Spáni í dag. Fyrsti andstæðingurinn er Kasakstan en Þórir segir leið síns liðs á mótinu býsna strembna.

Fyrstu tveir leikir Noregs ættu ekki að valda þeim sérstökum vandræðum, en Noregur mætir Kasakstan í dag og Íran á sunnudag.

„Þetta eru ekki lið sem ættu að valda okkur vandræðum og við notum þessa leiki til að sníða af kantana á okkar leik; búa til aðstæður í sókn og leysa úr þeim,“ sagði Þórir í spjalli við íþróttadeild.

Framhaldið á mótinu segir hann svo vera meiri áskorun. Lokaleikur riðlakeppninnar er gegn Rúmeníu á þriðjudag og í milliriðli bíða svo sterkar þjóðir á borð við Svíþjóð og Holland.

„Við erum að berjast við það að ná öðru að tveimur efstu sætum milliriðilsins og komast í 8-liða úrslit. Leiðin okkar megin í mótinu er mun erfiðari því í 8-liða úrslitum geta beðið okkar lið eins og Ólympíumeistarar Frakklands eða silfurlið Ólympíuleikanna, Rússland.“

Vön því að vera sigurstranglegust

Noregur hefur átt ótrúlega góðu gengi að fagna á þessari öld. Norska liðið er eiginlega alltaf talið sigurstranglegast þegar kemur að stórmótum í handbolta, og það kemur Þóri ekkert á óvart lengur.

„Nei, við erum orðin vön því. Svo er þetta líka smá sálfræðispil; verið að tala okkur upp og losa pressuna af öðrum liðum. Það er allt í lagi, það segir aðeins bara hvað hinar þjóðirnar eru hræddar við,“ segir Þórir og glottir.

Hann segir helstu keppinauta Noregs á mótinu vera þá sem eru þeirra megin í uppleggi mótsins. Þar á hann við að sterkustu liðin lenda annað hvort saman í milliriðli, eða þau mætist í fjórðungs- eða undanúrslitum. Noregur lendir í milliriðli með Svíþjóð og heimsmeisturum Hollands og þeirra milliriðill tekst á við milliriðil Frakka og Rússa í 8-liða úrslitum.

„EIns og þessu er stillt upp eru Spánn og Danmörk nánast með opna leið í undanúrslitin. Heimavöllurinn getur hjálpað Spáni og Danir eru með mjög gott lið. Svo er alltaf eitthvað lið sem kemur á óvart, eins og Króatía gerði á EM í fyrra.“

Enginn tími til að gráta síðasta mót

Noregur féll út í undanúrslitum Ólympíuleikanna í Tókýó, en fór heim með bronsið. Tapið í undanúrslitum var þeim hins vegar mikil vonbrigði og áfallið talsvert. Þórir segir það tilheyra fortíðinni og ekki megi dvelja lengi við.

„Það er enginn tími til að velta sér upp úr því. Þær sem tóku þetta næst sér fengu frí í síðasta verkefni og koma núna endurnærðar tilbaka. Nú einbeitum við okkur að HM og ætlum að spila gott mót,“ segir Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs.