Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Blandað lið Íslands fékk brons - Bretar Evrópumeistarar

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Pálsson

Blandað lið Íslands fékk brons - Bretar Evrópumeistarar

03.12.2021 - 20:03
Íslenska unglingalandsliðið í blönduðum flokki fékk brons á Evrópumótinu í hópfimleikum í kvöld. Liðið var 2,7 stigum á eftir Bretum sem urðu Evrópumeistarar í fyrsta sinn en Svíþjóð varð í öðru sæti.

Blandaða liðið varð í þriðja sæti í undanúrslitunum á fimmtudag og byrjuðu á dýnu í kvöld. Æfingar liðsins voru ágætlega vel heppnaðar og þau uppskáru 16,250 stig sem var heilmikil bæting frá því í undanúrslitunum þar sem liðið fékk 14,850. Trampólínið var næst og það heppnaðist ágætlega, þó ekki jafn vel og í undanúrslitunum þar sem liðið fékk 16,300. 15,900 var niðurstaðan fyrir trampólínið í kvöld og þá var bara dansinn eftir. 

Dansinn heppnaðist vel hjá krökkunum, þau fengu 17,300 stig, sem var heilu stigi meira en í undanúrslitunum. Það urðu samtals 49,450 stig, heilmikil bæting frá því á fimmtudagskvöld en skilaði þó sömu niðurstöðu, þriðja sætinu á eftir Bretlandi og Svíþjóð. Bretar sýndu frábærar æfingar og urðu Evrópumeistarar í hópfimleikum í fyrsta sinn í sögu landsins. 

Tengdar fréttir

Fimleikar

Keppa í fyrsta sinn á hópfimleikamóti á EM í Portúgal

Fimleikar

Nóg inni hjá íslensku unglingaliðunum fyrir úrslitin