Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biden undirbýr aðgerðir gegn Rússum

03.12.2021 - 19:21
Joe Biden Bandaríkjaforseti flytur ávarp.
 Mynd: EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist í dag undirbúa ýmis aðgerðir til þess að torvelda mögulega innrás rússneska hersins í Úkraínu. Búist er við að Biden eigi símafund með Vladímír Pútín Rússlandsforseta á næstu dögum.

„Ég er núna að setja saman umfangsmikinn aðgerðapakka til þess að gera Pútín afar erfitt fyrir að gera það sem fólk hefur áhyggjur af því að hann geri,“ sagði Biden.

Fjöldi hermanna við landamærin

Úkraínustjórn hefur sagt tugi þúsunda rússneska hermanna nærri landamærunum og hefur, ásamt allnokkrum leiðtogum annara ríkja, lýst áhyggjum af því að innrás gæti verið yfirvofandi.

Oleksíj Resníkov, varnarmálaráðherra Úkraínu, sagði til að mynda í dag að 94.000 hermenn væri nú við landamærin og átök gætu brotist út fyrir janúarlok.

Nýjar viðskiptaþvinganir

Á meðal þess sem Bandaríkjamenn hafa lagt til eru nýjar viðskiptaþvinganir gegn Rússum. „Frá því þessi ríkisstjórn tók við völdum höfum við sýnt fram á það að við erum tilbúin til þess að beita ýmsum verkfærum til þess að svara skaðlegum gjörðum Rússa. Við munum ekki hika við að beita þessum verkfærum í framtíðinni,“ hafði Reuters eftir heimildarmanni sínum innan Bandaríkjastjórnar.

Stjórnvöld í Moskvu segja Úkraínumenn og Bandaríkjamenn auka á togstreituna á svæðinu með málflutningi sínum og sagt að Úkraínumenn muni jafnvel sjálfir ráðast inn í austurhluta Úkraínu, sem er á valdi aðskilnaðarsinna sem eru hliðhollir Rússum. Þessu hefur Úkraínustjórn hafnað.

Þórgnýr Einar Albertsson