Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umtalsvert tjón vegna blóðþorra í laxi

02.12.2021 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Fiskeldisfyrirtækið Laxar varð fyrir umtalsverðu tjóni þegar veira sem veldur sjúkdómnum blóðþorra greindist í sjókví fyrirtækisins í Reyðarfirði. Mælingar á öðrum kvíum á staðnum standa nú yfir.

Allur fiskurinn svæfður

Þeir 68 þúsund fiskar, samtals um 140 tonn, sem voru í kvínni hafa nú verið svæfðir og er fiskurinn nú unninn í meltu sem verður flutt úr landi. 

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, segir ljóst að tjónið er þó nokkuð.

„Tjónið er umtalsvert. Við höfum verið að einbeita okkur að því að tæma þessa kví og taka þennan fisk úr umferð. Núna erum við í samstarfi við Matvælastofnun að taka sýni og gera aðrar mælingar á stöðinni,“ segir Jens Garðar en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvert tjónið er. 

Fyrsta smitið á Íslandi

Þetta er í fyrsta sinn sem blóðþorri kemur upp á Íslandi en sjúkdómurinn ræðst á þekjuvef blóðæða með þeim afleiðingum að miklar blæðingar verða í líffærum og tálknum. 

Veiran er ekki skaðleg mannfólki en er smitandi innan sjókvíarinnar og því verður hún ekki tekin strax aftur í notkun.

„Nú er Matvælastofnun í samstarfi við dýralækna félagsins að taka sýni úr öllum öðrum kvíum á stöðinni. Stöðin er ennþá og verður í fullri einangrun og sóttkví ef maður getur orðað það þannig. Við vonumst til að fá sýni úr öðrum kvíum vonandi í næstu viku,“ segir Jens Garðar.