Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir SAK þurfa um 240 milljónir til viðbótar

default
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri segir að miðað við fjárlagafrumvarpið vanti um 240 milljónir króna til sjúkrahússins. Áætlað framlag dugi ekki til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda síðustu ára.

Sjúkrahúsinu á Akureyri eru ætlaðir rúmir 10,5 milljarðar króna á fjárlögum. Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, segir að ekki hafi borist nánari sundurliðun á hvernig þetta fjármagn skiptist, en það sé alveg ljóst að það dugi ekki til.

Engin leið að hagræða meira en orðið er

„Við erum búin að vera með uppsafnaðan rekstrarvanda undanfarin ár og það er bara búið að taka svo mikið loft úr kerfinu hjá okkur að við sjáum ekki fram á að geta hagrætt meira. Þannig að við teljum að þarna vanti töluvert fjármagn til þess að við gerum haldið okkar eðlilegu og áframhaldandi þróun og þjónustu áfram.“

Segir vanta 220 til 240 milljónir

Hún áætlar að þarna vanti á bilinu 220 til 240 milljónir króna sem hafi veruleg áhrif á áframhaldandi rekstur. „Auk þess sem náttúrulega dregið er úr viðhaldskostnaði þegar rekstrarhallinn er þetta mikill. En það dregur allt saman dilk á eftir sér, þannig að þetta er ekki jákvætt.“

Áfram vinna við undirbúning nýrrar legudeildar

Áætlað er að byggja við sjúkrahúsið 8.500 fermetra álmu fyrir legudeildir og Hildigunnur segir áfram gert ráð fyrir fjármagni í það verkefni. „Þannig að við eigum þá að geta farið af stað með hönnunarfasa. Við erum bara afskaplega glöð yfir því og vonum að við náum að halda þessari áætlun, þannig að í lok árs 2027 verðum við komin hér með nýja legudeildarbyggingu.“

Þurfa að bregðast hratt við og sækja aukið fjármagn

En nú þurfi að bregðast hratt við til að ná því fé sem skorti í rekstur sjúkrahússins. „Það er náttúrulega til að byrja með fundur með fólki úr ráðuneytinu. Og svo þarf að heyra í þingmönnum umdæmis og annarra, formanni fjárlaganefndar og öllum þessum aðilum. Reyna að nýta bara tímann vel núna á meðan fjárlögin eru í umræðu í þinginu.