Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Pattstaða í viðræðunum við Íran

02.12.2021 - 17:57
epa09614075 Iranian President Ebrahim Raisi (C) speaks during a parliament session on the occasion of Parliament Day, at the Iranian parliament in Tehran, Iran, 01 December 2021. Iranian officials state that they are looking for a good, positive nuclear deal in Vienna which will lead to the lifting the of sanctions against the nation. Iran and world powers resumed nuclear talks in Vienna, Austria on 29 November 2021.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Írans voru ómyrkir í máli eftir viðræður um að endurvekja kjarnorkusamninginn sem kjarnorkuveldi heims gerðu við Íran árið 2015.

Afléttingar þvingana

Sá samningur snerist í grófum dráttum um afléttingar þvingana gegn verulegum takmörkunum á kjarnorkuáætlun Írans. Bandaríkin riftu samningnum einhliða árið 2018 en það hafði verið eitt af kosningaloforðum Donalds Trump, þáverandi forseta.

Erindrekar og embættismenn frá Bandaríkjunum og Evrópu mættu Írönum í viðræðum á mánudag í fyrsta sinn frá því hlé var gert á viðræðunum fyrir um fimm mánuðum þegar Íranar kusu sér nýjan forseta, Ebrahim Raisi, sem hefur verið afdráttarlaus í gagnrýni á vesturlönd.

Árangurslausar viðræður

Lítill sem enginn árangur virðist hafa náðst í vikunni ef marka má ummæli Antonys Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Hosseins Amirabdollahian, utanríkisráðherra Írans, í dag.

„Málflutningurinn og viðræðurnar í heild gefa ekki mikið tilefni til bjartsýni,“ sagði Blinken. Koma muni í ljós á næstu dögum hvort honum þyki Íranar taka viðræðunum alvarlega en Íranar mættu til leiks með ný drög að samkomulagi í vikunni þar sem þeir fara fram á að öllum takmörkunum verði aflétt samstundis.

Amirabdollahian var engu bjartsýnni. „Við mættum einbeittir til leiks en erum ekki vongóðir um að Bandaríkin og Evrópulöndin séu viljug til þess að ná samkomulagi í raun og veru,“ sagði íranski utanríkisráðherrann.

Þórgnýr Einar Albertsson