Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öllum 70 kílómetra hraðamerkjum stolið

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Allar 70 kílómetra hraðamerkingar við Sauðárkrók hurfu um helgina. Þangað til ný umferðarmerki berast Vegagerðinni er erfitt fyrir ökumenn að átta sig á hámarkshraða.

Lögreglan upplýst um málið

Á svæðismiðli Skagfirðinga, Feyki, segir frá því að aðfaranótt laugardagsins hafi starfsmenn Vegagerðarinnar tekið eftir því að skilti með hraðamerkingum höfðu verið skrúfuð af festingum og fjarlægð, 7 merkingar alls. Nýverið var hámarkshraði lækkaður við Sauðárkrók úr 90 í 70 km hraða. Rúnar Pétursson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni telur það þó ekki ástæðu þess að merkingar voru fjarlægðar og telur frekar að um einhvers konar galsagang sé að ræða.

Skiltin eru mjög dýr og má gera ráð fyrir kostnaði upp á tvö- til þrjúhundruðþúsund krónur

„Við höfum ekki frétt neitt af þessum merkjum eða hvað hefur orðið af þeim. Ég er búinn að vera í sambandi við lögreglu og lét þá vita af þessu. Að vísu ekki búinn að kæra formlega en menn eru svona meðvitaðir um þetta ef þeir finna einhvers staðar merkjahrúgu,“ segir Rúnar.

„Varla spennandi innanstokksmunur“

Framleiðsla er hafin á nýjum merkingum en sú vinna getur tekið um viku. 

Þangað til getur verið erfitt fyrir ökumenn að gera sér grein fyrir hámarkshraða á þessum vegaköflum. „Ég er ekki viss um að það standist lög ef að lögreglan mælir menn á kafla sem er ekki merktur,“ segir Rúnar.

Rúnar segist þó eiga von á að merkingarnar skili sér frekar en ekki.

„Ég veit ekki hvað menn eru að gera með hrúgu af stórum umferðarmerkjum heima í stofu hjá sér. Ég á nú ekki von á að það sé spennandi innanstokksmunur.“
 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir