Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýr snjótroðari væntanlegur í Kjarnaskóg

02.12.2021 - 15:01
Mynd: Ingólfur Jóhannsson / RÚV
Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur safnað rúmum 35 milljónum undanfarna mánuði í þeim tilgangi að festa kaup á nýjum snjótroðara í Kjarnaskógi. Peningarnir koma frá yfir 600 aðilum og segir framkvæmdastjóri félagsins það sýna hve mikilvægur skógurinn er samfélaginu.

Nýttur jafnt sumar sem vetur

Kjarnaskógur er vinsælasta útivistarsvæði Akureyringa og Eyfirðinga. Skógurinn er ekki síður vinsæll að vetri en sumri, hvort sem er til gönguferða eða til gönguskíðaiðkunar. Til að það sé mögulegt þarf að ryðja brautir skógarins.

Ingólfur Jóhannesson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga segir það í raun lífsspursmál til að halda skóginum opnum. „Ef við gerum það ekki þá kemst enginn hérna um frá því í október og fram á sumar. En ef við troðum á hverjum degi þá geta allir skrölt hér um eins og þeim sýnist.“

Meira en 600 aðilar hafa styrkt söfnunina

Snjótroðarinn sem nú er notaður er orðinn fimmtíu ára gamall og tímaspursmál hvenær hann treður sína síðustu braut. Nýtt tæki kostar 35 milljónir og ákvað skógræktarfélagið að setja af stað söfnun til að safna fyrir tækinu. Söfnunin átti að standa í eitt ár eða fram í febrúar á næsta ári. Markmiðinu er þó þegar náð og rúmlega það. Söfnunin er enn í gangi og það sem safnast umfram verður notað við rekstur troðarans. Rúmlega sex hundruð aðilar hafa þegar lagt söfnuninni lið, bæði einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög. 

„Við eigum þetta bara öll saman. Það var kannski draumastaðan. Það er gott að fá aurinn í verkefnið en það er líka ómetanlegt að upplifa það fallega sem er í kringum þessa söfnun,“ segir Ingólfur.

Samfélagið færi á hliðina

Í Kjarnaskógi rekst maður ávallt á fólk að stunda útivist. Þau Þórgnýr Dýrfjörð og Erla Björnsdóttir voru að spenna á sig gönguskíðin. Bæði sögðust þau hafa lagt peninga í söfnuna enda væri skógurinn þeim mjög mikilvægur.

„Það er þessi rómantík sem fylgir Kjarnaskógi sem við myndum klárlega missa af ef við hefðum ekki troðnar brautir. Það er alveg klárt mál,“ segir Erla.

Þórgnýr tekur í sama streng. „Það er svo mikil umferð hérna og það er svo gaman. Það er alveg sama hvenær maður kemur það er alltaf einhver að ganga hringinn.“

Ingólfur er ekki í nokkrum vafa hvað myndi gerast ef ekki væri hægt að ryðja brautirnar í skóginum. „Þá fer samfélagið á hliðina, það er ekkert flóknara!“