Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Jólin eru ekkert grín

Mynd: RÚV / RÚV

Jólin eru ekkert grín

02.12.2021 - 17:00

Höfundar

Við höldum áfram að jóla okkur í drasl í Undiröldunni og að þessu sinni er komið að Birgittu Haukdal í nostalgískri jólastemmningu en Prins Póló er með alls konar efasemdir. Önnur með jólastuð eru Hreimur, Salka Sól, Bragi Þór Valsson ásamt Barnakór Strandabyggðar og Þórhallur Þórhallsson grínisti.

Birgitta Haukdal – Ég man svo vel um jólin

Undanfarin ár hefur verið vinsælt að taka og endurgera lag Joni Mitchell, River, og jóla það í spað og bara tímaspursmál hvenær það fengi íslenskan texta. Það var Birgitta Haukdal sem bjó til texta við lagið sem í íslenskri útgáfu heitir Ég man svo vel um jólin.


Hreimur – Jólin koma, jólin fara

Áfram með aldamótapopparana því lagið Jólin koma, jólin fara er eftir Hreim Örn Heimisson og er að hans sögn samið eftir textabroti sem tengdapabbi hans heitinn samdi árið 2000. Þetta litla textabrot fannst nýverið og gerði Hreimur umsvifalaust lagið Jólin koma, jólin fara við þetta fallega ljóðbrot.


Salka Sól – Æskujól

Lagið Æskujól er úr leiksýningunni Jólaboðið sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu 19. nóvember. Í Jóaboðinu fylgjumst við með sögu íslenskrar fjölskyldu. Áhorfendur gægjast inn í stofu á aðfangadagskvöld, reglulega yfir einnar aldar tímabil en sagan hefst árið 1914. Lagið og textinn er eftir Sölku Sól og henni til aðstoðar við flutninginn eru Magnús Trygvason Eliassen, Guðmundur Óskar Guðmundsson og Tómas Jónsson.


Prins Póló – Eigum við að halda jól

Fjöllistamaðurinn Svavar Pétur Eysteinsson, einnig þekktur sem Prins Póló, hefur sent frá sér jólaádeiluna Eigum við að halda jól sem er lag og texti eftir hann sjálfan. Lagið syngur Svavar Pétur og honum til aðstoðar við flutningin eru þau, Árný Margrét, Sigurður Guðmundsson og Helgi Svavar Helgason.


Bragi Þór Valsson ásamt Barnakór Strandabyggðar – Jólin eru að koma

Bragi Þór Valson sendi í fyrra frá sér plötuna Jólin eru að koma sem innhélt tíu lög. Eitt þeirra laga, Jólin eru að koma, hefur hann nú sett í nýjan búning og fengið Barnakór Strandabyggðar til aðstoðar við flutninginn.


Jógvan Hansen - Jól á sjó

Tónlistarmennirnir Jógvan Hansen og Sigurður Flosason hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina og fengu þá hugmynd að gera jóla sjómannalag. Lagið heitir Jól á sjó og er samið af þeim félögum lagið á Jógvan en textan á Sigurður.


Þórhallur Þórhallsson – Jólablandan mín

Tónlistarmaðurinn Þórhallur Þórhallsson hefur sent frá sér lagið Jólablandan mín sem er á léttu nótunum en Þórhallur er einmitt einnig grínisti og sem slíkur sigurvegari keppninnar Fyndnasti maður Íslands árið 2007 og aðalleikari myndarinnar Mentor frá 2020.