Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Góður seinni hálfleikur Ungverja dugði til sigurs

epa09334434 Noemi Hafra of Hungary in action between Samara Vieira (L) and Tamires Araujo of Brazil during the friendly handball match in preparation for the Tokyo 2020 Olympic Games between Hungary and Brazil in Siofok, Hungary, 09 July 2021,  EPA-EFE/Tibor Illyes HUNGARY OUT
 Mynd: EPA

Góður seinni hálfleikur Ungverja dugði til sigurs

02.12.2021 - 19:00
Fyrsti leikur Ungverja og Slóvaka á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta fór fram í kvöld. Mótið fer fram á Spáni og var leikið í Lliría. Eftir jafnan fyrri hálfleik sigu Ungverjar fram úr í seinni hálfleik og unnu nokkuð þægilegan sigur og eru með tvö stig eftir fyrsta leik.

Slóvakía tekur þátt á heimsmeistaramóti í fyrsta sinn síðan árið 1995 en mikill uppgangur hefur verið í kvennahandboltanum þar í landi undanfarin ár. Ungverjaland er að sama skapi í uppbyggingar fasa en liðið endaði í 15. sæti á síðasta heimsmeistaramóti og sjöunda sætinu á Ólympíuleikunum en stór nöfn í ungverska handboltanum hafa lagt skóna á hilluna undanfarin ár og ber þar helst að nefna Anitu Görbicz, en hún er markahæst í sögu ungverska liðsins. 

Fyrri hálfleikurinn í Lliría var jafn og spennandi í kvöld, Slóvakar mættu hungraðar til leiks og gáfu ungverska liðinu ekkert eftir. Viktória Oguntoyová átti frábæran leik í markinu og fyrirliðinn Reka Bizikova fyrirliði liðsins átti sömuleiðis góðan leik. Ungverjar voru með yfirhöndina mest allan fyrri hálfleikinn en tókst aldrei að slíta Slóvakíu frá sér og staðan í hálfleik 16-16.

Í seinni hálfleiknum byrjuðu Ungverjar betur og litu aldrei um öxl, snemma var liðið komið í sex marka forystu og það hélst mest allan tímann, lokatölur 35-29. Katrin Gitta Klujber var markahæst í liði Ungverja með sjö mörk en Bizikova skoraði átta fyrir Slóvakíu.