Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrsta omíkron-smitið var hjá sjúklingi á Akranesi

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Fyrsta smitið með omíkron-afbrigðinu greindist hjá sjúklingi sem hafði legið inni í nokkurn tíma hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þetta staðfestir Þórir Bergmundsson, umdæmissóttvarnalæknir Vesturlands, í samtali við fréttastofu. Sjúklingurinn var í sóttkví þegar hann greindist með virkt smit og vegna framkvæmda við stofnunina var hann fluttur á Landspítalann til einangrunar. Fjölmargir starfsmenn HVE hafa farið í sýnatöka vegna smitsins.

Þórir segir við fréttastofu að þeir hafi farið í að rekja innan HVE og taka sýni hjá starfsmönnum.  Hann segir ekki grun um að afbrigðið sé komið í mikla dreifingu á Akranesi.  

Fram kom í tilkynningu frá Landspítalanum í dag að sjúklingurinn væri fullbólusettur og hefði fengið örvunarskammt en ekki liggur fyrir hvernig hann smitaðist af þessu afbrigði.

Tvö smit til viðbótar með afbrigðinu hafa verið staðfest hjá Íslenskri erfðagreiningu og smitin þrjú eru öll talin tengjast.  

Þórir rifjar upp að það hafi margoft verið sagt að þessi kórónuveira sé ólíkindatól. „Þetta afbrigði virðist vera bráðsmitandi en miðað við síðustu upplýsingar virðist það ekki valda miklum veikindum. En það er stöðugt verið að safna gögnum enda stutt síðan að afbrigðið kom fyrst fram.“

Omíkron var fyrst uppgötvað af vísindamönnum í Suður-Afríku. Það virðist þó hafa verið komið mun fyrr til Evrópu en upphaflega var talið. Þannig greindi Guardian í gær frá því að hjartalæknir frá Ísrael teldi sig hafa smitast af afbrigðinu á læknaráðstefnu á Lundúnum sem haldin var um miðjan síðasta mánuð.

Hollensk yfirvöld hafa sömuleiðis greint frá því að líklega hafi þetta afbrigði verið komið til landsins í kringum 19. nóvember.  Alls hafa 79 greinst með omíkron-afbrigðið á evrópska efnahagssvæðinu, flestir í Hollandi eða 16.  Afbrigðið hefur nú greinst í fimmtán löndum innan EES.

Öll jákvæð sýni er raðgreind hér á landi en vegna omíkron-afbrigðisins hefur verklagi verið breytt. Áður var öllum jákvæðum sýnum safnað saman í nokkra daga áður en þau voru raðgreind. Nú verður raðgreint á hverjum degi. „Til að fylgjast með því hvernig þetta afbrigði dreifir sér í íslensku samfélagi,“ sagði Kári Stefánsson í samtali við fréttastofu.

Omíkron er ólíkt öðrum afbrigðum að því leyti að það er með óvenju margar stökkbreytingar eða 60. Þar af eru 30 í hinu svokallaða gaddageni veirunnar sem stjórnar framleiðslu á S-prótíni og er langt umfram það sem áður hefur sést.

„Þegar svo margar stökkbreytingar verða á S-prótíninu þá vakna áhyggjur af því að smithæfni hennar kunni að aukast, hún geti valdið alvarlegri veikindum og að ónæmi sem fengist hefur af fyrri sýkingum og bólusetningum muni ekki vernda gegn frekari sýkingum/smiti,“ sagði í minnisblaði sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra fékk í vikunni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV