Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Áströlskum ráðherra vikið frá vegna ásakana um ofbeldi

02.12.2021 - 06:39
epa09611981 Australian Prime Minister Scott Morrison  speaks during a press conference at Parliament House in Canberra, Australia, 30 November 2021.  EPA-EFE/LUKAS COCH  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Alan Tudge ráðherra æskulýðs- og menntamála í ríkisstjórn Ástralíu hefur verið vikið úr embætti meðan rannsókn á meintum brotum hans gegn samstarfskonu eru rannsökuð.

Konan, Rachelle Miller starfsmaður ríkisstjórnarinnar, segir að Tudge hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi meðan á ástarsambandi þeirra stóð árið 2017.

Tudge neitar öllum ásökunum Miller sem segir að sambandið hafi einkennst af miklu valdaójafnvægi. Í samtali við blaðamenn í höfuðborginni Canberra lýsir Miller hvernig Tudge sparkaði henni fram úr rúmi eftir að hún svaraði vinnutengdu símtali um miðja nótt.

Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu tilkynnti að Tudge hefði samþykkt kröfu hans um að stíga til hliðar eftir að Miller greindi frá ofbeldinu. „Í ljósi þess hve alvarlegar ásakanirnar eru, er áríðindi að leysa þetta mál fljótt og af sanngirni,“ segir Morrison. 

Fyrir nokkrum dögum leiddi viðamikil rannsókn í ljós að kynferðisleg áreitni og einelti er útbreiddur vandi í ástralska þinginu. Hátt hlutfall starfsfólks þingsins kveðst hafa orðið fyrir áreitni og ofbeldi af ýmsu tagi. 

Vinnubrögð þar innandyra hafa verið til ítarlegrar skoðunar eftir að Brittany Higgins, starfsmaður þingsins, sagði frá því að henni var nauðgað á skrifstofu ráðherra árið 2019. 

Það mál er nú fyrir dómstólum en það varð til þess að háværar raddir kröfðust tafarlausra breytinga og umbóta. Í framangreindri rannsókn er lagður til nokkur fjöldi leiða til úrbóta, þess á meðal að stjórnmálamenn viðurkenni vandann og marki stefnu um öryggi og velferð starfsfólks þingsins.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV