Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

70 milljónir þarf til að forða freskuverki frá skemmdum

02.12.2021 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Víðistaðakirkja - RÚV
Viðgerðarkostnaður við Víðistaðakirkju nemur um 70 milljónum og er fjármögnun verksins mikil áskorun fyrir söfnuðinn. Viðgerðirnar eru lífsnauðsynlegar því vegna ástandsins á kirkjunni liggja freskumyndir eftir listamnninn Baltasar Samper undir skemmdum. Þetta kemur fram í bréfi formanns sóknarnefndar til bæjarráðs Hafnarfjarðar þar sem hann þakkar fyrir þann 10 milljóna króna styrk sem bæjaryfirvöld veittu á dögunum.

Freskurnar hafa nú þegar orðið fyrir nokkrum skemmdum, bæði vegna þakleka í kirkjunni en líka umgangs. Í bréfi formanns sóknarnefndar kemur fram að upphæðin frá bænum auðveldi kirkjunni að ráðast í nauðsynlegt viðhald á þaki og gluggum kirkjunnar. 

Heildarkostnaður við viðgerðirnar er áætlaður um 70 milljónir og segir formaðurinn að verkefnið sé risavaxið fyrir söfnuðinn.  Kirkjan hefur einnig fengið styrk til framkvæmdarinnar úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári „en fjármögnun verksins verður áfram mikil áskorun.“

Formaðurinn bendir jafnframt á að freskumyndirnar eftir Baltasar Samper séu ein helstu menningarverðmæti bæjarins og eitt merkasta kirkjulistaverkið á Íslandi.  Og vegna ástandsins á kirkjunni liggi verkið undir skemmdum.

Baltasar var tvö ár að undirbúa freskumyndirnar sem hafa verið eitt helsta aðdráttarafl kirkjunnar.  Að baki þeirra býr mikil forvinna, bæði guðfræðileg og við skissugerð. Þær voru síðan málaðar á þremur mánuðum, frá haustinu 1986 til 1987.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV