Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Yfirsjónir kjörstjóra breyttu nærri kosningaúrslitum

Litlu munaði að utankjörfundaratkvæði sem urðu ógild vegna undirskrift kjörstjóra vantaði hefðu breytt úrslitum þingkosninganna í Suðurkjördæmi. Stjórnmálafræðiprófessor segir óþolandi að fulltrúar ríkisvaldsins geti tekið kosningaréttinn af kjósendum.

Skrifstofustjóri Alþingis óskaði eftir upplýsingum um fjölda og ástæður ógildingar utankjörfundaratkvæða í öllum kjördæmum. Svörin sýna að minnst þrettán atkvæði voru ógild vegna þess að undirskrift eða stimpil frá kjörstjóra vantaði. Þau gætu hins vegar verið fleiri því þessar upplýsingar virðast ekki vera til samkvæmt svörum úr þremur kjördæmum. Það eru Norðvesturkjördæmi þar sem heildarfjöldi utankjörfundaratkvæða kemur ekki fram og í Norðaustur og Suðvesturkjördæmi þar sem aðeins fékkst heildarfjöldi ógildra utankjörfundaratkvæða en ekki sundurliðun á ástæðum ógildingar.

Séu svörin borin saman við niðurstöður kosninganna kemur í ljós að yfirsjón kjörstjóra hafði nærri því áhrif á úrslit kosninganna í Suðurkjördæmi. Þar voru fimm atkvæði ógild því undirskrift kjörstjóra vantaði, en Hólmfríði Árnadóttur í Vinstri grænum vantaði aðeins átta atkvæði til að ná kjördæmasætinu af Birgir Þórarinssyni í Miðflokknum.

„Það er auðvitað algjörlega óþolandi að fulltrúar ríkisvaldsins valdi því að kosningarétturinn sé í raun tekin af kjósendum,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.

Ólafur segir að þetta þurfi að skoða betur. Til dæmis þurfi að liggja fyrir hvort mistökin séu bundin við ólaunaða erlenda kjörræðismenn eða hvort íslenskir kjörstjórar hafi einnig gert þessi mistök.

„ Það er alveg ljóst að svona mistök myndu aldrei ógilda kosningar eða leiða til uppkosningar. Hins vegar sýnir þetta eins og klúðrið í Norðvestur að það er full ástæða til að fara að tillögum kjörbréfanefndar, skerpa á allri framkvæmd kosninganna og ganga strax í það að endurskoða nýju kosningalögin sem eru reyndar ekki enn þá komin í gildi,“ segir Ólafur.
 

 

 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir