Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir skipun Jóns móðgun við fólk sem krefjist framfara

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, fór hörðum orðum um skipun tveggja ráðherra í nýrri ríkisstjórn í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Hann var sérstaklega harðorður um Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra vegna andstöðu hans við frumvarp um þungunarrof í fyrra og stuðning við tálmunarfrumvörp. „Skipun hans er móðgun við fólk sem gerir réttmæta kröfu um löngu tímabærar framfarir í þágu réttlætis.“

Auk skipunar Jóns sem dómsmálaráðherra fór skipun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir brjóstið á Andrési Inga. Hann sagði að virkjanasinnar í Sjálfstæðisflokknum hefðu áttað sig á því fyrir kosningar að þeir gætu notað loftslagsmálin sér í vil. Nú fengju Sjálstæðismenn að stýra umhverfismálunum og þar væri valinn til forystu maðurinn sem hefði grafið undan einu af meginmálum Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili, það væri Guðlaugur Þór Þórðarson sem hefði sem utanríkisráðherra setið yfir því að hernaðarumsvif ykjust mjög á Íslandi.

Hörðustu orð Andrésar Inga beindust hins vegar að Jóni. Hann hefði verið valinn dómsmálaráðherra eftir að hafa staðið gegn rétti kvenna í þungunarrofsmálinu, frumvarpi sem Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, lagði fram og var samþykkt á Alþingi þrátt fyrir andstöðu nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Að auki hefði Jón tekið þátt í nær öllum tálmunarfrumvörpum sem lögð hafi verið fram á þingi „svona rétt til að fjölga ásunum í ermi ofbeldismanna“ sagði Andrés Ingi. „Skipun hans er móðgun við fólk sem gerir réttmæta kröfu um löngu tímabærar framfarir í þágu réttlætis.“