Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Margir á sumardekkjum og sumir gleyma að skafa

Mynd: Daniel Nanescu / Splitshire
Vetrarfærð er í öllum landshlutum og hálka á helstu leiðum, Umferð er nú tekin að þyngjast á höfuðborgarsvæðinu en þar snjóaði lítillega í nótt og talsverð hálka er víða. Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að umferð hafi gengið ágætlega enn sem komið er.

„Það er búið að hálkuverja víða á höfuðborgarsvæðinu, þannig að þetta ætti að rúlla vel í  dag,“ sagði Árni í morgunumferðinni í morgun. Margt þyrfti að varast.

„Það er eins og Íslendingar gleymi alltaf þegar snjóar á veturna að þá myndast hálka á götunum. Og í hálku renna bílar og við höfum séð það illilega síðustu daga.“

Árni segir marga vera enn á sumardekkjum og það valdi miklum umferðartöfum og að sjálfsögðu aukinni slysahættu. 

Að sögn Árna má alltaf rekja hluta umferðarslysa að vetrarlagi til þess að ökumenn skafa ekki af rúðum bíla sinna. „Það er alveg á hreinu í reglugerðum að fólk eigi að hafa gott útsýni úr bílum sínum. Það eru margir sem gleyma afturrúðunni - það er eins og það sé of langt að ganga aftur fyrir bílinn.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir