Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mánatúnssprengjan tengdist ekki sendiráði Bandaríkjanna

01.12.2021 - 11:51
Mynd með færslu
Myndin er úr safni. Mynd: RÚV
Ekkert bendir til þess að heimatilbúna sprengjan, sem fannst í ruslagámi við Mánatún í gær, hafi tengst sendiráði Bandaríkjanna. Tveir af þeim þremur mönnum sem handteknir voru vegna málsins hafa hafið afplánun vegna fyrri refsidóma en þeim þriðja hefur verið sleppt.

Þetta má lesa út úr tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Þar segir að rannsókn miði vel og að lögregla ætli ekki að veita frekari upplýsingar að svo stöddu. 

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út eftir að sprengjan fannst. Ekki þótti ástæða til að leita eftir aðstoð sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar heldur sá sérsveitin sjálf um að eyða sprengjunni.

Ríkislögreglustjóri vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og sagðist ekki geta tjáð sig hvort öryggisgæsla í kringum sendiráð Bandaríkjanna hefði verið hert.