Japönskunám í Grunnskóla Ísafjarðar

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Japönskunám í Grunnskóla Ísafjarðar

01.12.2021 - 07:50

Höfundar

„Þetta er alveg erfitt, sérstaklega ritmálið, en þetta er mjög skemmtilegt," segir Orri Norðfjörð einn fjölmargra nemenda grunnskólanna á Ísafirði og Suðureyri sem tekur japönsku sem valfag.

„Þetta kom þannig til að nokkrir nemendur stungu upp á Anime, japönsku teiknimyndahefðinni þegar óskað var eftir hugmyndum að valfögum. Nokkrir nefndu líka japönsku þannig að mér datt í hug að slá þessu saman og það kemur bara vel út. Allavega eru þau mjög áhugasöm," segir Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, kennari við Grunnskólann á Ísafirði.

„Við getum sagt að þetta sé svona kynning á japönsku og japanskri menningu. Við vorum núna t.d. að skoða japanska þjóðbúninga, í síðasta tíma gerðum við sushi þannig að þetta er býsna fjölbreytt. Svo erum við svo heppin að tveir japanskir handboltamenn leika með Herði í vetur og þeir hafa komið og hjálpað okkur með japanska framburðinn," segir Ólöf.