Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína í kvöld

01.12.2021 - 07:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld. Í dag verður einnig kosið í fastanefndir og alþjóðanefndir þingsins og forseti Alþingis verður kosinn formlega. Þá verður einnig dregið í sæti í þingsalnum.

Allar líkur eru á því að Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins verði kjörinn forseti Alþingis, en samhliða ríkisstjórnarmyndun var samið um hvaða flokkur fengi því embætti úthlutað. Það féll Sjálfstæðisflokki í skaut og hefur Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, stungið upp á Birgi í embættið. 

Sá þingfundur hefst klukkan eitt í dag og er framhaldsfundur af þingsetningu. Þá verður einnig dregið í sæti í þingsalnum þar sem þingmönnum er úthlutað sæti í salnum. Hér á landi hefur sú hefð skapast að þingmenn blandast í þingsal en sitja ekki samkvæmt flokkslínum eins og sumstaðar tíðkast.  

Í kvöld klukkan hálf átta hefst svo bein útsending á RÚV frá stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem einnig taka til máls fulltrúar allra flokka á þingi. 

Á fyrri fundi dagsins þar sem forseti og varaforsetar þingsins verða kjörnir verður einnig kosið um nefndarmenn í fastanefndum og alþjóðanefndum. Stjórnarflokkarnir hafa gefið það út að þeir fari með formennsku í öllum fastanefndum á þessu kjörtímabili að einnig undanskilinni.

Stjórnarandstaðan fær formennsku í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd Alþingis. Á seinasta kjörtímabili gegndi fulltrúi stjórnarandstöðunnar formennsku í þremur nefndum.