Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

FH-ingar unnu Hafnarfjarðarslaginn

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

FH-ingar unnu Hafnarfjarðarslaginn

01.12.2021 - 21:19
FH og Haukar mættust í Hafnarfjarðarslag í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Viðureignir þessara liða eru yfirleitt einstaklega jafnar og spennandi en í kvöld voru það FH-ingar sem höfðu yfirhöndina og unnu fjögurra marka sigur, 28-24.

Litlu munaði á liðunum í fyrri hálfleik þó svo að FH-ingar væru alltaf skrefinu á undan og væru yfir í hálfleik 16-14. Haukar jöfnuðu í stöðunni 19-19 þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum en þá skoraði FH fimm mörk í röð og ekki var aftur snúið. Fjögur mörk var að lokum það sem skildi liðin að. 

Með sigrinum tilla FH-ingar sér á topp deildarinnar þar sem þeir eru með 17 stig eftir 11 leiki, einu stigi fleira en nágrannarnir Haukar sem sitja í öðru sætinu. Ásbjörn Friðriksson fór mikinn í liði FH í kvöld og skoraði 11 mörk. Markahæstur hjá Haukum var Brynjólfur Snær Brynjólfsson með fimm.