Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dómstóll setur tímabundið lögbann á skyldubólusetningu

epa09613769 US President Joe Biden talks with supporters after speaking about the Infrastructure law at the Dakota County Technical College in Rosemount, Minnesota, USA, 30 November 2021.  EPA-EFE/CRAIG LASSIG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alríkisdómstóll í Louisiana í Bandaríkjunum hefur sett bráðabirgðalögbann á tilskipun Biden-stjórnarinnar þess efnis að allir heilbrigðisstarfsmenn í landinu skuli skyldaðir til bólusetningar gegn COVID-19. Í niðurstöðu dómsins kemur fram ríkur efi um að skyldubólusetning standist ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna.

Ætlunin var að bólusetningar heilbrigðisstarfsfólks á sjúkrahúsum og í hjúkrunarheimilum hæfust í næstu viku og yrði lokið fyrir 4. janúar næstkomandi.

Lögbannið útvíkkar niðurstöðu dómstóls í Missouri-ríki frá því á mánudaginn sem aðeins tók til þeirra tíu ríkja sem höfðuðu mál gegn alríkisstjórninni.

Dómarinn Terry A. Doughty segir í úrskurði sínum að enginn vafi leiki á því að þinginu en ekki ríkisstofnun beri að ákveða skyldubólusetningu ríflega tíu milljóna heilbrigðisstarfsmanna.

Hann bætti þó við að óljóst væri hvort slík tilskipun þingsins stæðist stjórnarskrána. Málshefjendur, ríkin tíu, hafi ríka ástæðu til að vernda borgara sína og að koma í veg fyrir að fólk missi atvinnu sína sem verði til þess að ríkin verði af skatttekjum þess vegna.

Allmörg ríki og nokkrar borgir hafa þegar fyrirskipað heilbrigðisstarfsfólki að þiggja bólusetningu til að komast hjá útbreiðslu faraldursins.

Það færðist í aukana eftir að Delta-afbrigði veirunnar varð til þess að smitum fjölgaði mjög meðal starfsfólks og sjúklinga ásamt því að æ fleiri þurftu að leggjast inn á sjúkrahús.

Stórar sjúkrahúskeðjur og hjúkrunarheimili kröfðust þess einnig að starfsmenn þeirra þæðu bólusetningu áður en tilskipun Bandaríkjaforseta þess efnis var gefin út.