Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

CNN víkur Chris Cuomo ótímabundið úr starfi

Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska fréttastöðin CNN hefur vikið þáttastjórnandanum Chris Cuomo ótímabundið úr starfi. Hann hafi aðstoðað Andrew bróður sinn, ríkisstjóra í New York, mun ákafar við að verjast ásökunum um kynferðisofbeldi en stjórnendur stöðvarinnar hafi gert sér grein fyrir.

Eftirrit úr dómsskjólum Letitiu James ríkissaksóknara í New York sýni það svo ekki verði um villst. Bræðurnir eru synir Mario Cuomo sem var ríkisstjóri New York í þrjú kjörtímabil frá 1983 til 1994. Andrew er 63 ára og Chris 51 árs.

Óháð rannsókn leiddi í ljós að Andrew Cuomo áreitti fjölda kvenna kynferðislega, þeirra á meðal samstarfskonur sínar. Hann sagði af sér embætti vegna málsins í ágúst síðastliðnum. Málaferli vegna kynferðisbrots af hans hálfu hófust um miðjan nóvember. 

Vinsældir þeirra beggja jukust mjög þegar kórónuveirufaraldurinn skall á í fyrra, ekki síst fyrir samtöl þeirra á sjónvarpsstöðinni þar sem ríkisstjórinn og þáttastjórnandinn ræddu opinskátt og hressilega saman. 

Nú segir talsmaður CNN að málsgögnin frá ríkissaksóknara sem gerð voru opinber á mánudag veki upp margvíslegar spurningar um þátt Chris í liðsinni við Andrew. Gögnin bendi til mun meiri afskipta hans en áður var vitað. 

Þrátt fyrir að eðlilegt hafi þótt að hann setti fjölskyldu sína í fyrsta sætið þá verði nýjar upplýsingar til þess að Chris Cuomo verði vikið úr starfi tímabundið. Staða hans verði endurmetin síðar en Anderson Cooper fyllti skarð hans í gærkvöldi.