Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tíu af tólf ráðherrum af suðvesturhorninu — „Ömurlegt“

30.11.2021 - 11:31
Mynd: RÚV / RÚV
Af tólf ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar eru aðeins tveir úr kjördæmum utan suðvesturhornsins. Fara þarf áratugi aftur í tímann til að finna ríkisstjórn sem ekki hafði fulltrúa úr Norðausturkjördæmi.

Flestir í Suðvesturkjördæmi

Ríkisstjórnin sem tók við stjórnartaumunum í gær er sú fjölmennasta sem verið hefur við völd í meira en áratug og telur tólf ráðherra. Flestir eru úr Reykjavíkurkjördæmum tveimur. Þau Katrín Jakobsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ásmundur Einar Daðason úr Reykjavík norður og þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir úr Reykjavík suður. Flestir ráðherranna koma úr Suðurvesturkjördæmi. Þeir Bjarni Benidiktsson, Jón Gunnarsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Willum Þór Þórsson. Úr Suðurkjördæmi kemur Sigurður Ingi Jóhannsson og úr Norðvesturkjördæmi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Óvenjulegt að sjá ekki ráðherra úr Norðausturkjördæmi

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri segir afar óvenjulegt að sjá svo mikinn halla á landsbyggðarkjördæmin og þá sérstaklega að ekki sé fulltrúi úr Norðausturkjördæmi. „Já já  það er hægt að rekja sig aftur á bak, það er Steingrímur J, það er Kristján Þór Júlíusson, það er Kristján Möller, Valgerður Sverrisdóttir, Halldór Blöndal, ég get farið einhverja áratugi aftur í tímann, það hefur alltaf verið ráðherra hérna en það verður nú enginn atgervisflótti úr kjördæminu þó  það vanti kannski eitt kjörtímabil,“ segir Grétar. 

„Alveg ömurlegt“

En þó það verði ekki atgervisflótti virðast kjósendur í kjördæminu ekki sáttir.  „Alveg ömurlegt, þetta eru allt saman ráðherrar fyrir sunnan. Þetta eru alltsaman ráðherrar af suðvesturhorninu,“ sagði Birna Jónasdóttir, íbúi á Akureyri.

Jóna Ragúels og Guðni Hermannsson tóku í sama streng. „Ég er kannski ekki alveg nógu hrifinn eins og þetta blasti við í gærkvöldi. Við höfum náttúrulega engan þingmann hér á okkar svæði en ég á eftir að kynna mér þetta betur,“  sagði Jóna. 

„Við eigum að eiga ráðherra hérna. Bæði hér á Norðurlandi og út á landi, mér finnst þetta engan veginn nógu gott. Þeir hefðu getað stjórnað þessu aðeins betur, karlarnir í höfuðborginni,“ sagði Guðni. 

„Ekkert víst að það bitni á kjördæminu“ 

Grétar segir þetta ekki endilega þurfa að koma niður á kjördæminu. „Þingmennirnir eru engu að síður til staðar, í kjördæminu og þeir munu eflaust láta vel í sér heyra og minna á hagsmuni kjördæmisins þó að ráðherrann sjálfan vanti þá er það ekkert endilega víst að það bitni á kjördæminu.“ 

Þannig að þetta er enginn heimsendir fyrir kjósendur á Norður og Austurlandi?

„Það held ég ekki.“