Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skikka gríska eldri borgara í bólusetningu

epa01136174 An elderly woman attends an event for senior citizens at the largest charitable retirement home in Athens, Greece, 1 October 2007. 01 October 2007declared as the International Day for the Older Persons. Today, world-wide, there are around 600 million persons aged 60 years and over; this total will double by 2025 and will reach virtually two billion by 2050 - the vast majority of them in the developing world.  EPA/ORESTIS PANAGIOTOU
 Mynd: EPA - ANA
Frá miðjum janúar verða allir Grikkir sem orðnir eru sextíu ára og eldri að láta bólusetja sig gegn kórónuveirunni. Ella verða þeir að greiða hundrað evrur í sekt í hverjum mánuði sem þeir láta hjá líða að mæta.

Kyriakos Mitsotakis forsætisráðherra tilkynnti þetta í dag. Hann sagði að hópurinn fengi frest til sextánda janúar að panta tíma í bólusetningu. Ákvörðunin sagði hann að hefði verið tekin af illri nauðsyn. Vernda þyrfti heilsu þeirra sem hættast væri við að smitast af kórónuveirunni.

Að sögn Mitsotakis eru um fimm hundruð þúsund Grikkir sextíu ára og eldri enn óbólusettir. Hann ætlar að skikka þá til að greiða hundrað evrur í á mánuði þar til þeir láta sér segjast. „Þetta er ekki sekt,“ sagði forsætisráðherrann, „þetta er fólki til verndar.“ Ríkisskattstjóra verður falið að innheimta sektirnar sem á að nota til að fjármagna rekstur ríkisspítalanna

Mitsotakis sagði að útgöngubann væri ekki í kortunum yfir jól og áramót. Bólusetningaráætlun stjórnvalda virtist vera að virka í aðalatriðum. Þrír af hverjum fjórum Grikkjum, tólf ára og eldri, hefðu látið bólusetja sig en því miður væru alltaf einhverjar eftirlegukindur. Hann sagði að omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar hefði enn ekki orðið vart í Grikklandi en það kæmi fyrr eða síðar.