Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Krónutöluhækkanir og hærra frítekjumark

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Magnús Geir Eyjólfsson
Gert er ráð fyrir 2,5 prósenta hækkun á áfengis- og tóbaksgjöldum, sem og á olíugjaldi, bensíngjaldi, kolefnisgjaldi, kílómetragjaldi og bifreiðagjaldi. Sama hækkun er lögð til í framkvæmdasjóð aldraðra og til Ríkisútvarpsins. Lagt er til að frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega verði tvöfaldað.

Samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022, bandorminum svokallaða, er lagt til að frítekjumark ellilífeyrisþega verið hækkað 2,4 milljónir á ári í stað 1,2 milljóna eins og nú er.

Losunargjald hækkar um rúm 68 prósent á næsta árinu frá því sem það er í ár. Verður 5.767 krónur fyrir hvert tonn í stað 3.430 króna í ár. Er þetta gert í samræmi við minnisblað frá KPMG, út frá skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins um meðalverð losunarheimilda í Evrópu frá 1. ágúst 2020 til 31. júlí 2021.

Hækkun skerðingarmarka og barnabóta

Talsverðar breytingar eru lagðar til varðandi barnabætur. Gert er ráð fyrir að neðri skerðingamörk tekjustofns barnabóta hækki úr 8 prósentum, úr 4,2 milljónum á ári upp í 4,5 milljónir á ári, eða 325 þúsund krónum á mánuði í 379 þúsund. Fyrir sambúðarfólk hækka neðri skerðingarmörkin úr 8,4 milljónum á ári í 9,1 milljón, úr 702 þúsund krónum á mánuði í 758 þúsund. 
Þá er gert ráð fyrir að efri skerðingarmörkin hækki um 12 prósent. Er það gert vegna þess að efri skerðingarmörkin hafa haldist óbreytt frá upptöku þeirra árið 2019. Loks er lagt til að fjárhæðir barnabóta hækki á bilinu 5,5 til 5,8 prósent.

Bráðabirgðaákvæði um að fella niður gistináttaskatt verður framlengt. Að óbreyttu ætti ákvæðið að renna út um komandi áramót. Í frumvarpinu segir að þar sem enn sé mikill samdráttur í ferðaþjónustu og óljóst hversu lengi hann standi yfir er lagt til að greiðsla og innheimta gistináttaskatts verði felld niður til og með 31. desember 2023.

Hækkanir á sköttum og gjöldum koma til með að hækka vísitölu neysluverðs um 0,08 prósent miðað við gefnar forsendur frumvarpsins. Framlengin á niðurfellingu gistináttaskatts minnkar áhrifin um 0,01 prósent og eru heildaráhrifin á vísitöluna því 0,07 prósent.

Meiri áhrif á ráðstöfunartekjur kvenna

Loks segir að ekki hafi farið fram ítarleg greining á jafnréttisáhrifum frumvarpsins. Leiða megi líkur að því að þær hafi ólík áhrif á karla og konur, þar sem konur eru að meðaltali með lægri tekjur en karlar. Miðað við að barnabætur fóru í 70 prósentum tilfella til kvenna í ár er hægt að gera ráð fyrir því að breyting barnabóta auki ráðstöfunartekjur kvenna í meira mæli er karla.

Áætlað er að tekjuskattur lækki um 2,3 milljarða á næsta ári vegna upptöku framleiðniviðmiðs við uppfærslu skattleysis- og þrepamarka. Þannig er gert ráð fyrir að skattleysis- og þrepamörkin miði við þróun vísitölu neysluverðs, að viðbættum 1,0 prósenta framleiðnivexti á ári.