Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jákvæð þróun í nýrri þjóðhagsspá

30.11.2021 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Útlit er fyrir að verg landsframleiðsla aukist um 3,9 prósent í ár. Þetta segir í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en spáin tekur til áranna 2021 til 2027.

Efnahagsbati hafinn

Efnahagsbati hófst á öðrum ársfjórðungi þessa árs en fimm ársfjórðungana á undan hafði landsframleiðsladregist saman. 

Alls dróst verg landsframleiðsla saman um 6,5 prósent á síðasta ári og einkaneysla dróst saman um 3 prósent. 

Gert er ráð fyrir að vöxtur verði enn meiri á næsta ári en var í ár, eða um 5,3 prósent og að árlegur hagvöxtur verði að jafnaði 2,3 prósent fram til ársins 2027. Einnig býst Hagstofan við því að einkaneysla, fjármunamyndun og samneysla aukist næstu árin, þó mismikið. 

Viðsnúningur verður í fjárfestingu á árinu og spáir Hagstofa því að hún aukist um 11,9% og atvinnuvegafjárfesting og opinber fjárfesting aukist mest.

Einkaneysla eykst

Hvað varðar einkaneysluna þá er gert ráð fyrir að hún vaxi um 3,8 prósent í ár og 4,9 prósent á því næsta eftir þriggja prósenta samdrátt á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins. 

Neysla Íslendinga erlendis hefur aukist mjög með afléttingu ferðatakmarkana og segir í spánni að væntingar heimila hafi verið jákvæðar frá því bólusetningar hófust og slakað var á samkomutakmörkunum.

Stærsta loðnuvertíðin

Von eru á stærstu loðnuvertíð í tuttugu ár og gert er ráð fyrir að hún skili um sextíu milljórðum króna í útflutningstekjur. Auki ein og sér landsframleiðslu næsta árs í kringum eitt prósentustig frá fyrri spá.

Horfur eru sagðar á að heildarútflutningur vöru og þjónustu aukist um 14,9 prósent í ár og er sá vöxtur meiri en áður var spáð. Gert er ráð fyrir að eyðsla hvers ferðamanns aukist töluvert og að útflutningur vaxi um 18,9 prósent á næsta ári þegar ferðamönnum fjölgar.

Áfram verðbólga

Samkvæmt því sem kemur fram í spánni er útlit fyrir að verðbólga verði áfram yfir efri mörkum verðbólgumarkmiðs seðlabankans framan af næsta ári og hafa bæði hækkun á húsnæðisverði og erlendur kostnaðarþrýstingur gert verðbólguhorfur verri.

Reiknað er með að verðbólga verði 4,4 prósent að meðaltali í ár og að vísitala neysluverðs hækki um 3,3 prósent að meðaltali á næsta ári. Árið 2023 er svo gert ráð fyrir að verðbólga verði 2,6 prósent að meðtaltali en verði nálægt 2,5 prósenta markmiði eftir það.

Minna atvinnuleysi

Útlit er fyrir minni slaka á vinnumarkaði næstu ár vegna hraðari bata í hagkerfinu en dregið hefur úr atvinnuleysi undanfarna mánuði. Búist er við að atvinnuleysi verði 6,5 prósent í ár að meðaltali en 5,3 prósent á því næsta.

Atvinnuleysi minnkaði hratt eftir að slakað var á takmörkunum í byrjun sumars. Það hafði verið 10,1 prósent að meðaltali á fyrri helmingi ársins.

Skuldir aukast

236 milljarða króna halli var á rekstri ríkissjóðs í fyrra þegar tekjur drógust saman um sjö prósent en útgjöld jukust um rúm fjórtán prósent. Áhrifa faraldursins gætti enn á afkomu hins opinbera á fyrri helmingi ársins.

Samhliða hallarekstri hefur skuldastaða ríkissjóðs versnað. Hún var tæplega 900 milljarðar króna, um 30 prósent vergrar landsframleiðslu, við upphaf faraldurs. Skuldir höfðu aukist um tæpa 500 milljarða í lok október og námu um 43,5 prósent af vergri landsframleiðslu.

Þórgnýr Einar Albertsson