Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Heimilar loðnuveiðar með flotvörpu undan Norðurlandi

Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í dag reglugerð sem heimilar loðnuveiðar með flotvörpu úti fyrir Norðurlandi. Talsvert af loðnu hefur fundist þar en hún er of djúpt til að hægt sé að veiða hana í nót.

Um er að ræða breytingu á reglugerð um loðnuveiðar íslenskra skipa á vetrarvertíð 2021/2022. Við hana bætist bráðabirgðaákvæði sem heimilar loðnuveiðar með flotvörpu á ákveðnu hafsvæði undan Norðurlandi.

Skip sem farin eru til loðnuveiða hafa orðið vör við talsvert af loðnu á þessu svæði. Þau hafa hinsvegar lítið getað veitt þar sem loðnan stendur of djúpt til að hægt sé að veiða hana í nót. Við þessar aðstæður er flotvarpan mun hentugra veiðarfæri.  

Heimildin gildir til áramóta. Í frétt um málið hjá Austurfrétt kemur fram að útgerðir loðnuskipa hafi óskað eftir heimild til flotvörpuveiða fyrir tíu dögum.