Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bjartsýnn eftir fyrsta fund um kjarnorkusamning

30.11.2021 - 04:35
epa09611292 Deputy Secretary General/Political Director of the European External Action Service (EEAS), Enrique Mora addresses the media as he leaves after a JCPOA Joint Commission Iran talks meeting in Vienna, Austria, 29 November 2021. The Joint Commission of the Joint Comprehensive Plan of Action (JCPOA) at a Deputy Foreign Ministers and Political Directors' level is chaired on behalf of EU High Representative Josep Borrell, by the EEAS Deputy Secretary General Enrique Mora and is attended by China, France, Germany, Russia, Britain and Iran.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA
Enrique Mora, aðalsamningamaður Evrópusambandsins um framtíð kjarnorkusamningsins við Íran Mynd: EPA-EFE - EPA
Formaður samninganefndar Evrópusambandsins er bjartsýnn eftir fyrsta dag fundarhalda um framtíð kjarnorkusamnings sambandsins og fleiri ríkja við Írana. Fulltrúar Evrópusambandsríkja, Bretlands, Rússlands og Kína funduðu með Írönum í Vínarborg í gær. Þetta var fyrsti fundur ríkjanna um fimm mánaða skeið. Markmiðið er að reyna að koma kjarnorkusamningnum frá 2015 aftur í gagnið.

Enrique Mora, aðalsamningamaður Evrópusambandsins um framtíð samningsins, var vongóður eftir fyrsta fundardaginn. „Ég er ákaflega bjartsýnn, út frá því sem ég upplifði í dag,“ sagði Mora að fundi loknum. Hann sagði viðræðurnar hafa einkennst af „þeirri tilfinningu, að það sé bráðnauðsynlegt að endurlífga kjarnorkusamninginn.“

Samningurinn kveður á um að Íranar hætti að auðga úran, veiti eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar aðgang að kjarnorkuverum sínum og fleira sem miðar að því að tryggja að þeir geti ekki komið sér upp kjarnavopnum. Á móti skulu Vesturveldin aflétta olíusölubanni og öðrum refsiaðgerðum gegn Íran.

Samkomulagið í molum eftir riftun Bandaríkjastjórnar

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, dró Bandaríkin einhliða út úr samningnum árið 2018 og innleiddi viðskiptahindranir og aðrar refsiaðgerðir gegn Írönum að nýju. Eftir það tóku Íranar til við að auðga úran umfram það sem samningurinn leyfir og takmarka að auki aðgang eftirlitsmanna Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar að kjarnorkuverum sínum og úranbirgðum.

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hefur lýst vilja til að gera Bandaríkin að aðila samningsins á nýjaleik, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Íranar segja Bandaríkin hins vegar verða að stíga fyrsta skrefið og gerast aðilar að samningnum áður en þeir fara að setja öðrum skilyrði.