Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þykk bók full af leik og alvöru, sögum og sögu

Mynd: Sögufélagið / Sögufélagið

Þykk bók full af leik og alvöru, sögum og sögu

29.11.2021 - 23:14

Höfundar

Fyrir réttum mánuði kom út mikið verk til íslenskrar menningarsögu á 20. öld, bókin Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu – Orðspor Williams Faulkner á íslandi 1930 – 1960. Í bókinni er leidd framm flétta rithöfundarferils Williams Faulkners og íslenskt bókmentalíf á árum stríðs og eftirstríðsára.

Í tilefni útgáfunnar efndi Sögufélagið sem gefur bókina út til útgáfuhófs og höfundarspjalls í Gunnarshúsi þar sem höfundurinn Haukur Ingvarsson rakti nokkrar skemmtisögur í sambandi við bókina. Einar Kári Jóhannsson ræddi við Hauk og ritstjórinn Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur sagði nokkur orð.   

Í þættinum Orð um bækur þann 29. nóvember mátti heyra hluta af dagskránni sem fram fór í Gunnarshúsi 3. nóvember sl. Hér má hlusta á dagskrána í heild sem tók hátt í klukkustund. 

Þótt bókin Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu - Orðspor Williams Faulkner á Íslandi 1930 -1960 beri nafn hins mikla höfundar og Nóbelsverðlaunahafa þá fjallar þessi bók um svo miklu meira, nefnilega sjálft bókmenntakerfið, ekki síst eins og það birtist í íslensku bókmenntalífi.

Haukur gaumgæfir ekki eingöngu texta skáldskaparins, túlkun hans í samtíma og síðar, þýðingar, gagnrýni fjölmiðla, sölutölur og endurútgáfur eins og venja er heldur og ekki síður hvernig bókmenntir og skáldskapur dreifist til lesenda á ólíkum formum og eftir ólíkum leiðum; hefur áhrif í gegnum kvikmyndir, kiljuútgáfa, ferðalög einstaklinga um heiminn, hneykslissögur að ekki sé talað um tilraunir til að ná pólitískum undirtökum á ákveðnum svæðum.

Heimsókn Nóbelsverðlaunahafans Williams Faulkners til Íslands árið 1955 hafði átt að verða mikilsverður stuðningur við hægri öfl í menningarlífi á Íslandi í ört hitnandi köldu stríði. En á þessum tíma var í Bandaríkjunum  starfrækt sérstök stofnun, að segja má, sem ætlað var að tryggja undirtök Bandaríkja frelsins gegn einræði kommúnismans á sviði menningarinnar.

William Faulkner reyndist kannski ekki það afgerandi afl enda mátti ekki á milli sjá hvort forsvarsmenn Almennta bókafélagsins, Máls og menningar eða Birtingsmenn hömpuðu honum meira. Hitt er að í gegnum William Faulkner, verk hans og heimsókn hans hingað sem Nóbelsverðlaunahafa má lýsa upp mikilvæga kima í íslensku menningarlífi sem sjaldan hefur verið gaumur gefin í bókmenntafræðilegum rannsóknum, segja menningarsögu miðbiks síðstu aldar með nýjum hætti. 

„Ef maður hefði ætlað að skoða bandaríska höfunda sem þýddir voru á íslensku hefði legið beinast við að skoða verk Johns Steinbeck enda vinsælastur bandarískra höfundur á Íslandi  á þessum tíma að mati bandarískra embættismanna. En sagan sem ég vildi segja var ekki þessi opinbera saga," segir Haukur meðal annars. „Maður finnur kannski þráðinn sinn þegar maður finnur blindan blett og Faulkner er náttúrlega blindur blettur á fjórða áratugnum því hann er ekki þýddur. En þegar ég fór að skoða  bókasöfn sem hluta af íslensku menningarlífi var miklu meira lesefni þar heldur en það sem þýtt var á íslensku (...) og það gaf mér tækifæri til að rannsaka allar þessar norrænu þýðingar."  Og þar með ýmsar áður órannsakaðar leiðir bókmenntanna til lesenda og áhrifa á skáldskap höfunda víðsvegar.  

Bókin Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu hefur með öðrum orðum að geyma nýja sýn á væringar vinstri og hægri manna í íslensku menningarlífi en einnig nýja sýn á svo margt sem hefur áhrif á það hvaða höfundar og hvaða verk ná máli, vinsældum og þar með áhrifum á hreyfingar og stefnur í menningarlífinu hverju sinni.