Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ósátt við aðeins einn nefndarformann í stað þriggja

29.11.2021 - 22:06
helga vala helgadóttir þingmaður samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis
 Mynd: RÚV/Grímur
Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar eru ósáttir við að fá aðeins einn nefndarformann í fastanefnd í stað þriggja á síðasta kjörtímabili. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks segir þessa skipan farsælasta fyrir alla, líka stjórnarandstöðuna. Þingflokksformenn allra flokka hittust í kvöld til að ræða skipan í fastanefndir Alþingis.

„Þetta er sama ríkisstjórn og ætlaði að styrkja Alþingi og efla traust almennings á þeim störfum sem hér eru. Ég er ekkert viss um að þetta sé rétta leiðin heldur sé verið að tryggja ennþá frekar sín miklu völd hér innanhúss. Ég hefði haldið að það væri betra að fara inn í þetta kjörtímabil af meiri auðmýkt og með meiri samvinnu í huga við stjórnarandstöðuna,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

„Ríkisstjórnin ætlar að bjóða stjórnarandstöðunni formennsku í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd hvort að stjórnarandstaðan tekur því boði veit ég ekki,“ segir Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Kastljósi í kvöld að ekki hafi reynst vel að stjórnarandstaðan færi með formennsku í fleiri en einni þingnefnd. Óli Björn segir skynsamlegt að stjórnflokkarnir fari með formennsku flestra nefnda.

Reynslan síðustu ár þar sem þeir hafa verið þrír hefur það ekki skilað því sem vonast varð eftir? „Það er er bara upp og niður en ég held að það sé farsælast fyrir þingið, fyrir ríkisstjórnina, fyrir minnihluta og fyrir meirihluta að það liggi skýrt fyrir hvernig nefndum þingsins sé stýrt og að verkstjórnin sé í einhverju samræmi við þann vilja sem meirihluti þingsins hefur á hverjum tíma,“ segir Óli Björn.

Helga Vala sem sinnti formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á fyrrihluta síðasta þings og velferðarnefnd á seinni hluta þingsins, segist ekki hafi fundið fyrir miklum kvörtunum með störf sín. „Enda held ég ekki að þetta snúist um persónur og leikendur heldur um að þau eru með fullt af þingmönnum og vilji fjölga sætum fyrir sitt fólk eins og þau gerðu í ríkisstjórninni að fjölga stólum fyrir sitt fólk. Þetta á líka við um alþjóðanefndir, þar ætla þau að gera þetta sama, þetta snýst augljóslega um að tryggja það að ríkistjórnarflokkarnir hafi sem mest völd og að þeir sem veita aðhaldið hér innahúss hafi minni völd, “ segir Helga Vala.

Þingflokksformaður Pírata segir ríkisstjórnina vera að hverfa aftur í  gamla tíma sem voru ólýðræðislegri. „Sérstaklega Vinstri græn virðast algjörlega búin að gefast upp fyrir því að efla þingið og efla stjórnarandstöðuna og efla lýðræðið, öll þessi fagra hugsun frá síðast kjörtímabili er bara búin sko,“ segir Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.