„Mér finnst ekki mitt að tala um nýja grísinn“

Mynd: Bónus/Randy / Samsett

„Mér finnst ekki mitt að tala um nýja grísinn“

29.11.2021 - 14:40

Höfundar

„Ég fékk á tilfinninguna að við værum tengd og við værum næstum vinir,“ segir Edith Randy Ásgeirsdóttir sem hannaði Bónusgrísinn vinalega með lata augað fyrir meira en þremur áratugum og lýsir honum sem gallaðri fegurðardís. Sá hefur gengið í endurnýjun lífdaga og er sú ákvörðun að kveðja gamla góða grísinn afar umdeild.

Nýverið voru gerðar breytingar á einu þekktasta vörumerki íslenskrar verslunarsögu, Bónusgrísnum svokallaða, sem hefur verið einkennismerki lágvöruverðsverslanakeðjunnar Bónuss frá upphafi. Grísinn hefur fylgt versluninni alveg frá því sú fyrsta var opnuð í 400 fermetra húsnæði í Skútuvogi árið 1989 og bauð upp á lægra vöruverð en áður hafði þekkst á Íslandi. Bónus hefur síðan vaxið, farið í útrás og skipt um eigendur og heldur nú úti tugum verslana um allt land. Í gegnum þessa þróun hefur grísinn haldist eins; bleikur á gulum fleti, búlduleitur, glottandi sparigrís með latt auga. Fullkomlega ófullkominn eins og við erum kannski flest.

Trimmaðri grís með samhverf augu

En grísinn hefur nú breyst og er orðinn straumlínulagaðri, trimmaður aðeins til og augun eru orðin samhverfari. Leturgerðinni hefur verið breytt og hún verið einfölduð. Þessi umbreyting er gerð til að laga vörumerkið að þeim stafrænu breytingum sem fram undan eru í rekstrinum samkvæmt fréttatilkynningu frá Bónus. Nýja ásýndin er sögð munu auðvelda skilaboðagerð og samskipti, meðal annars á samfélagsmiðlum, samkvæmt tilkynningunni.

Bónusgríssins minnst

Upprunalega grísinn, þann pattaralega með lata augað, hannaði Edith Randy Ásgeirsdóttir sem á þeim tíma hafði stofnað auglýsinga- og skiltagerðina Landlist ásamt eiginmanni sínum. Hún hannaði og málaði skilti fyrir þessa nýju lágvöruverðsverslun sem Jóhannes Jónsson var að koma á fót. Randy, eins og hún er kölluð, er ekki mikið fyrir að trana sér fram. Hún hefur því ekki sagt frá tilurð gríssins eða rakið upprunasögu merkisins í fjölmiðlum, fyrr en nú. Lestin á Rás 1 kíkti á heimili hennar í Garðabæ þar sem Bónus-gríssins heitins var minnst.

Mynd með færslu
 Mynd: Edith Randy Ásgeirsdóttir - Facebook
Edith Randy er þakklát fyrir ást þjóðarinnar á Bónusgrísnum með lata augað. sem nú hefur kvatt verslunarkeðjuna.

„Jóhannes var einstakur maður“

Randy segir frá því að hún hafi þekkt Jóhannes áður en hann setti verslanakeðjuna á fót. „Hann var alveg einstakur maður, rosalega kraftmikill og ríkur af orku og því sem þarf til að gera það sem hann gerði,“ segir Randy.

Þegar Jóhannes hafði samband við hana og bar undir hana verkefnið hafði hann þegar sett skilti á húsið sem aðeins stóð á Bónus með mjóu letri. Randy ákvað strax að hafa letrið stórt í sinni útgáfu. „Ég tók massíft letur sem ég ætlaði að hafa, svo biður Jóhannes mig að búa til skilti,“ segir Randy.

„Fékk það á tilfinninguna að við værum tengd“

Hugmyndin var að á lógóinu væri einhvers konar greiðslukort en Randy var ekki viss um hvernig það væri best útfært. „Ég hugsaði guð minn almáttugur þetta gengur aldrei. Við vorum bara ekki komin þangað að við gætum gert það, við vorum ekki með prentvél þannig að það var ekki um annað að ræða en að fá einhverja hugmynd,“ segir Randy.

Hún tók að svipast um eftir öðru tákni og tók eftir því að þegar verið var að auglýsa tilboð í dönskum blöðum voru grísir, eða sparibaukar, gjarnan notaðir sem tákn fyrir sparnað. „Svo ég hugsaði bara úpsídeisí, ég hlýt að geta notað bara sparibauk í staðinn fyrir þetta kreditkortastand,“ segir Randy sem hóf að hanna grísinn. Og hún var strax ánægð með útkomuna. „Ég fékk á tilfinninguna að við værum tengd og við værum næstum vinir,“ segir hún um grísinn sinn. Það kom straumur frá honum.“

Stimplaði sig inn í hjörtu landsmanna

Rifuna á bakinu á grísnum hannaði Randy meðvitað þannig að það færi mikið fyrir henni. Það kæmi ekki að sök að hann væri ófullkominn því fólk tengdi við hann sem vinalegan en aðeins gallaðan. Það er ljóst að Bónusgrís Randy talaði beint inn í hjörtu landsmanna og stimplaði sig inn í þjóðarvitundina. Viðbrögðin við breytingunum á merkinu hafa verið afar hörð. Grafíski hönnuðurinn, og nýkrýndur handhafi hönnunarverðlauna Íslands, Siggi Odds, skrifar til dæmis á Twitter:

Er ekki í lagi með fólk? Skilja Ísleningar gjörsamlega ekkert? Af hverju fær ekkert að vera í friði á þessu landi? Hver er tilgangurinn og markmiðið? Taka núansinn söguna og húmorinn burt, svo bara tóm generísk skel sitji eftir.

Aðrir netverjar hafa tekið undir. Hrafn Jónsson spyr: „Hvaða sick djók er þetta? Hvar er lata augað? Hvaða persónuleikalausi imposter er þetta,“ fengið að flakka. Og sömuleiðis fullyrðirðir hann: „Þetta er milljón sinnum meira offensive en swole Klói.“

Fegurðardísin með gallana

Það er ljóst að þetta er hitamál, tilfinningaþrungið í hugum margra. En þetta gat Randy auðvitað ekki vitað þegar hún byrjaði að skyssa sparigrís undir lok níunda áratugarins: „Ég var bara með grófan blýant og svo þurfti ég að tússa yfir það því við vorum ekki með prentvél en við vorum með skurðvél,“ rifjar hún upp. „Ég gerði nokkra og þessi var fegurðardísin með gallana.“

Hún prófaði upprunalega að laga lata augað fræga sem er þykkara en hitt. En þá missti hann strax þennan sjarma sem fyrst blasti við. Og það þekkja allir grísinn sem hefur orðið mörgum öðrum listamönnum innblástur. Hann hefur verið notaður í listaverkum, Andri Snær Magnason gaf út ljóðabókina Bónusljóð þar sem trýnið á grísnum prýddi kápuna. Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona hefur einnig notað grísinn í teikningum sínum sem hún nefnir Bónuskonur.

Þykir vænt um að heyra börnin dást að grísnum

„Ég er hreykin af því og finnst yndislegt að eiga svona með öðrum,“ segir Randy. „Þetta hefur bara verið fallegt og gaman.“

Og ekki þykir henni síður vænt um það þegar hún verslar í búðinni og heyrir lítil börn benda á grísinn í aðdáun g segja: „Sjáðu grísinn!“ Hún segir að börnin séu einna hrifnust af honum, „ég veit ekki hvort fólk er annars mikið að brjóta heilann um þetta.“

Sem fyrr segir var grísnum nýverið breytt og óhjákvæmilegt að spyrja Randy hvernig henni líst á þá þróun. „Ég er þakklát fyrir mína ást á þessu og söguna sem er á bak við þetta. Mér finnst ekki mitt að tala um nýja grísinn, finnst frekar að aðrir eigi að segja en ég.“

Kristján Guðjónsson ræddi við Edith Randy Ásgeirsdóttur í Lestinni á Rás 1.