Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Langar alltaf að enda árið á góðum leik og sigri"

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

„Langar alltaf að enda árið á góðum leik og sigri"

29.11.2021 - 14:45
Glódís Perla Viggósdóttir og Þorsteinn Halldórsson voru til viðtals á blaðamannafundi kvennalandsliðsins í fótbolta í dag. Síðasti leikur Íslands á þessu ári í undankeppni HM er á morgun þegar Ísland mætir Kýpur.

Leikurinn verður ytra á morgun klukkan 17 og er þetta síðasti leikur kvennalandsliðsins á árinu en fyrri leikur liðanna fór 5-0 fyrir Ísland á Laugardalsvelli í haust. „Við eigum aldrei í vandræðum með að mótivera okkur og ég hef engar áhyggjur af því að það verði eitthvað vandamál fyrir þennan leik heldur. Við lítum bara á þennan leik eins og hvern annan leik og þrjú stig eru alltaf þrjú stig sama hvaðan þau koma. Við vitum að þetta er rosalega mikilvægur leikur og við ætlum að fara heim með þrjú stig," segir Glódís.

„Þetta er seinasti leikurinn hjá mörgum á árinu og manni langar alltaf að enda árið á góðum leik og sigri" segir hún.

„Skiptir svo sem ekki máli hverjar spila - erum alltaf með sterkt lið"

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, vildi ekki gefa neitt upp um byrjunarliðið á morgun þegar hann var spurður út í hvort hann myndi stilla upp sínu sterkasta liði. „Ég er ekki búinn að tilkynna byrjunarliðið. Það verður gert eftir æfinguna í dag. Við stillum upp sterku liði, það skiptir svo sem ekki máli hverjar spila, við erum alltaf með sterkt lið," segir hann.

Þorsteinn segir að íslenska liðið muni ekki nálgast þennan leik öðruvísi en fyrri leikinn. „Þær verða þéttar, skipulagðar og liggja lágt niðri - ég hef enga trú á öðru. Við þurfum að leysa þá hluti, komast á bakvið þær og búa til færi. Við þurfum að stýra leiknum vel, vera góðar á boltanum og góðar að pressa þegar við töpum boltanum," segir Þorsteinn.

„Við fókusum bara mest á okkur sjálfar og þær liggja djúpt svo við þurfum að vera þolinmóðar með boltann en sækja fram á við og þora setja boltann svolítið inn í teiginn og gera árás á boltann þar og vinna þann bardaga," bætir Glódís Perla við.